Hafa náð upp 100 rúmmetrum

Starfsmenn norsku siglingastofnunarinnar vinna við hreinsun olíu í Óslóarfirði.
Starfsmenn norsku siglingastofnunarinnar vinna við hreinsun olíu í Óslóarfirði. Reuters

Norska strandgæsluskipið Harstad hefur náð upp rúmlega 100 rúmmetrum af olíu sem lekið hefur úr íslenska flutningaskipinu Goðafossi eftir strandið í Oslóarfirði. 

Skipverjar á Harstad unnu í alla nótt við að hreinsa upp olíu af sjónum. Nýtur norska siglingastofnunin aðstoðar sænskrar eftirlitsflugvélar og olíuhreinsunarskipa.

Olíurákir sjást á ísnum og þess vegna er talið hugsanlegt að einhver olía flæði undir ísinn og komi upp á nýjum stöðum.

Kuldinn veldur erfiðleikum við hreinsunarstarfið.

Harstad heldur áfram að hreinsa upp olíuflekki í dag og strandgæsluskipið Ålesund er einnig við eftirlit og hreinsun.

Engin olía er við strandstaðinn enda er talið að kuldinn hafi stöðvað lekann úr tönkum Goðafoss.

Olía hefur borist á land á fjórum stöðum á Østfold. Gröfuprammi er notaður til að ná upp olíu úr ísnum á Sandö á Vestfold. Ströndin beggja vegna strandstaðarins verður könnuð frekar í dag, samkvæmt upplýsingum á vef norsku siglingastofnunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert