Kröfum Landsbanka í gengislánamáli hafnað

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfum Nýja Landsbankans um að  þrotabú Motormax ehf. viðurkenndi kröfu í búið sem reist var á þeim grunni að skuldin við bankann væri í erlendum gjaldmiðlum.

Flest þau mála sem dómstólar hafa dæmt í og varða lögmæti gengistryggðra lána hafa verið mál sem höfðuð hafa verið gegn einstaklingur. Þetta mál varðar hins vegar fyrirtækið Motormax. Fyrirtækið tók lán hjá Landsbankanum í mars 2007 og var lánsupphæðin 150 milljónir. Á skuldabréfinu kom fram að lánið væri í erlendum gjaldmiðlum. Í maí árið 2009 varð Motormax gjaldþrota. Landsbankinn gerði kröfu í þrotabúið upp á 276 milljónir króna og tók upphæðin mið af hækkun gengis krónunnar. Skiptastjóri hafnaði kröfunni og vísaði í rökstuðningi sínum m.a. í dóm Hæstaréttar í gengislánamáli. Skiptastjóri viðurkenndi kröfu frá bankanum upp á 168 milljónir og varð niðurstaðan sú að vísa ágreiningi í málinu til héraðsdóms.

Héraðsdómur vísar í niðurstöðu sinni í dóm Hæstaréttar í gengislánamáli sem féll í júní á síðasta ári og segir að deiluefnið og atvik í því máli hafi að mörgu leyti verið áþekk og í þessu máli. Einnig vísaði héraðsdómur í dóm Hæstaréttar í máli sem féll 14. febrúar sl. þar sem ágreiningur laut m.a. að því hvort skuldbinding samkvæmt lánssamningi hafi verið ákveðin í íslenskum krónum eða erlendri mynt. Kröfum Landsbankans var því hafnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert