Stefnt er að því að koma Goðafossi, flutningaskipi Eimskips, á flot í birtingu í dag, en undirbúningur á strandstað hefur miðað að því, enda er því spáð að aðstæður verði með besta móti.
Þrír dráttarbátar munu draga skipið á flot en um klukkan átta að staðartíma verður háflóð sem talið er að auðvelda muni verkið. Gangi það eins og vonir standa til verður skipið flutt 1,7 sjómílu til Kirkeskjær.
Þar verður Goðafossi lagt við akkeri og farið undir það til þess að meta skemmdir á skrokknum. Jafnframt verður skipið tæmt þar af olíu og gámum. Systurskipið Dettifoss er væntanlegt til Frederiksstað í kvöld til að flytja gámana úr Goðafossi til áfangastaðar.
Að flutningnum loknum verður Goðafoss búinn undir frekari flutning á endanlegan áfangastað til tæmingar og viðgerðar.