Lekinn úr Goðafossi er hættur hefur Extrablaðið danska eftir dönskum strandyfirvöldum. Í dag hafði fréttaveita AFP eftir sænskum yfirvöldum að skipið væri farið að leka olíu og lýstu áhyggjum af viðkvæmu lífkerfi við friðlýsta strandlínu Kosterhavet, sem er nálægt Hvaler þar sem Goðafoss strandaði þann 17. febrúar síðastliðinn.
Skýringin gæti verið olíuleifar á botni skipsins
„Við gætum fyllsta öryggis og förum að fyrirmælum þeirra yfirvalda sem við siglum í gegnum landhelgi hjá, sem voru norsk, sænsk og dönsk,“ segir Ólafur William Hand, upplýsinga- og markaðsstjóri hjá Eimskipafélagi Íslands. Hann segir Goðafoss hafi fengið heimild hjá öllum þessum þjóðum til þess að sigla þessa leið. „Við leyfum okkur að efast um að skipið hefði fengið þessa heimild ef talin hefði verið einhver hætta á mengun. En ég vil líka taka fram að ef það er einhver olíubrák að berast frá skipinu að þá eru það væntanlega einhverjar olíuleifar sem hafa verið fastar undir botni skipsins.“
Ólafur segir olíuna klístraða eins og malbik við visst hitastig og að öllum líkindum hafi einhverjar olíukögglar verið að losna frá botninum sem geti þá verið skýringin á olíubrákinni.
Ólafur segir að gætt sé fyllsta öryggis og fylgt sé öllum þeim fyrirmælum sem komi frá yfirvöldum á svæðinu. Ekkert sé gert nema í samráði við þau.