Segja trúnað hafa ríkt á fundunum

Úr Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Úr Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Jón Pétur

Bolli Þór Bollason, fyrrverandi ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins, segir að trúnaður hafi ríkt um þær upplýsingar sem hafi komið fram á fundum samráðshóps um fjármálastöðugleika og viðbúnaðar árið 2008. Þetta kom fram í vitnisburði Bolla fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, í máli Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, en aðalmeðferð í málinu hófst kl. 9 í morgun.

Þá kom fram í máli Bolla að hann hefði ekki talið sig færan um að selja hlutabréf sem hann átti í bönkunum vegna þeirra upplýsinga sem hann bjó yfir, sem einn af fulltrúunum í samráðshópnum.

Baldur er ákærður fyrir innherjasvik í opinberu starfi með því að hafa selt öll hlutabréf sín í Landsbankanum 17. og 18. september 2008 fyrir samtals 192 milljónir kr. Baldur neitar því að hafa búið yfir innherjaupplýsingum. Fram kom í máli hans í morgun að hann gerði greinarmun innherjaupplýsingum og trúnaðarupplýsingum. 

Bolli sagði fyrir dómi í dag að Baldur hefði greint sér frá sölunni eftir að hún var frágengin. Sagði Bolli ef hann hefði fengið að vita um söluna fyrirfram þá hefði hann mælt gegn henni. Baldur sagði við skýrslutöku í morgun að Bolli hefði ekki gert athugasemdir við söluna.

Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, tók í sama streng og Bolli varðandi það að trúnaður hafi ríkt um þær upplýsingar sem hafi komið fram á fundunum, en hann bar einnig vitni í héraðsdómi í dag.

Um er að ræða fundi samráðshóps forsætis-, fjármála-, viðskiptaráðuneytisins, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Fram kemur í ákæru að upplýsingarnar hafi komið fram á sex fundum hópsins frá 22. júlí 2008 til 16. september 2008.

Auk Bolla og Jónasar hefur Jónína S. Lárusdóttir, fyrrverandi ráðuneytisstjóri viðskiptaráðuneytisins, Áslaug Árnadóttir, einnig fyrrverandi ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneytinu, borið vitni.

Þau hafa m.a. verið spurð út í fundargerðir hópsins og hvort að þær upplýsingar sem þar komi fram séu réttar. Flestir hafa tekið fram að fundargerðirnar séu mjög ítarlegar og réttar í meginatriðum. Þá hafa flestir tekið fram að þeir muni ekki nákvæmlega eftir öllu því sem hafi komið fram á þessum fundum.

Fyrsta degi aðalmeðferðarinnar er lokið og verður henni framhaldið á föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka