Aðalmeðferð í máli ríkissaksóknara gegn Baldri Guðlaugssyni hófst á ný í morgun. Hafa Ingimundur Friðriksson, fyrrverandi seðlabankastjóri, og Tryggvi Pálsson, forstöðumaður fjármálasviðs Seðlabankans, borið vitni.
Baldur er ákærður fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi með því að hafa nýtt sér upplýsingar sem almennir fjárfestar bjuggu ekki yfir þegar hann seldi bréf í Landsbankanum í september 2008. Þessar upplýsingar haf hann fengið í starfi sínu sem ráðuneytisstjóri, einkum í
tengslum við setu sína í samráðshópi stjórnvalda um fjármálastöðugleika.
Fram kom m.a. hjá Tryggva Pálssyni, sem einnig sat í samráðshópnum, að hann leit svo á að vegna stöðu sinnar væru honum settar afar miklar skorður við að eiga viðskipti með hlutabréf og skuldabréf. Tryggvi sagðist hafa átt hlutabréf í öllum íslensku bönkunum sumarið 2008. Tryggvi breytti ekki sinni stöðu þar sem hann taldi sig ekki geta selt bréfin vegna þeirra upplýsinga sem hann bjó yfir. Það sem hefði komið fram á fundum samráðshópsins hefði verið trúnaðarmál. Bæði hvað varðaði einstök fjármálafyrirtæki og stöðumatið almennt.
Tryggvi var meðal annars beðinn að staðfesta fundargerðir, sem hann skrifaði af fundum samráðshópsins. Hann sagði m.a. að fyrir hrun hefðu bankarnir sýnt eiginfjárstöðu og afkomu sem virtist í lagi. Sú afkoma var að hluta vegna gengisávinnings.
Vandi fjármálafyrirtækja á þessu tímabili hefði fyrst og fremst verið lausafjárstaðan en fyrirtækin hefðu ekki fengið ný lán í útlánum. Tryggvi sagði, að bankar féllu vegna lausafjárstöðu en það byggði oft á því, að þeir væru að missa traust.
„Við höfðum ekki aðaláhyggjurnar af afkomu bankann og eiginfjárstöðu heldur lausafjárstöðu," sagði Tryggvi.
Tryggvi sagði að fundargerðirnar hefðu orðið mun ítarlegri þegar á leið og mönnum var ljóst að þeir stæðu frammi fyrir stórum vanda.
Ingimundur var m.a. spurður út í fundargerðirnar og hvort hann kannaðist við það sem kæmi fram í þeim. Ingimundur sagðist ekki draga það í efa sem þar kæmi fram. Þá sagði hann að trúnaður hefði gilt um þær upplýsingar sem hefðu komið fram á fundunum.
Alls munu fimm bera vitni í dag.