Gríðarlega viðkvæmar upplýsingar

Fyrrverandi forstöðumaður lögfræðiráðgjafar Landsbankans, segir að afar fáir innan bankans hefðu þekkt til samskipta bankans við breska fjármálaeftirlitið um hugsanlega yfirfærslu Icesave-reikninga bankans yfir í dótturfélag í Bretlandi.

Gunnar Viðar sagðist í skýrslutöku í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag hafa séð um bréfleg samskipti bankans við breska fjármálaeftirlitið. „Ég hélt um pennann," sagði Gunnar og sagði að bankastjórar Landsbankans hefðu sagt fyrir um innihald bréfanna.

Gunnar sagði, að afar fáir hefðu vitað um  þessi samskipti innan bankans, eða aðeins 4-5 menn. Þetta hefðu verið taldar miklar trúnaðarupplýsingar eins og alltaf þegar um væri að ræða samskipti við fjármálaeftirlit.

Gunnar sagði, að menn hefðu óttast áhlaup á Landsbankann í í langan tíma Árið 2008. Árið áður féll breski bankinn Northern Rock og fleiri bankar voru að falla enda stæðist enginn banki slík áhlaup. 

Hann mótmælti því, að Landsbankamenn hefðu dregið lappirnar í samskiptum við breska fjármálaeftirlitið eins og Bolli Bollason hélt fram í skýrslutöku á miðvikudag. Reynt væri að vanda sem best til verka þegar um væri að ræða samskipti við fjármálaeftirlit.  

Fram kom hjá Gunnari, að hollensk stjórnvöld hefðu einnig farið fram á það haustið 2008, að innlán á Icesave-reikninga í Hollandi yrðu stöðvuð. Samskiptin við Hollendinga hefðu hins vegar verið með óformlegri hætti en við Breta og Hollendingar hefðu frekar virst hafa áhyggjur af stöðu íslensks efnahagslífs en stöðu bankans.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka