Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, sagði í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, að eftir á að hyggja hafi bresk stjórnvöld verið að reyna að knýja fram ríkisábyrgð á innlánum Landsbankans í Bretlandi.
Sigurjón bar vitni í máli ákæruvaldsins gegn Baldri Guðlaugssyni, sem ákærður er fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi. Staðfesti Sigurjón að hafa setið fund í ágúst 2008 ásamt Baldri og fleiri embættismönnum þar sem rætt var um kröfur breska fjármálaeftirlitsins á hendur bankanum.
Sigurjón sagði, að árið 2008 hefðu verið samskipti milli breska fjármálaeftirlitsins og Landsbankans vegna Icesave-reikninga bankans. Í byrjun ársins hefði fjármálaeftirlitið viljað endurskoða þær lausafjárreglur sem bankinn átti að uppfylla í Bretlandi. Í maí hefðu Bretarnir hins vegar virst sáttir við að bankinn fylgdi breskum lausafjárreglum.
Í júlí hefði viðhorfið síðan breyst eftir að fjallað hafði verið um málið á breska þinginu. Sagði Sigurjón, að Bretar hefðu opnuðu málið upp á nýtt, orðið mjög ósveigjanlegir og ekki viljað koma til móts við þær tillögur sem við Landsbankinn lagði fram um að flytja Icesave-reikningana yfir í dótturfélag í Bretlandi.
Sagði Sigurjón, að breska fjármálaeftirlitið hefði viljað, að færðar yrðu eignir og laust fé frá móðurfélaginu yfir í dótturfélagið í einu lagi. Sigurjón sagði, þetta hefði falið í sér, að aðrir lánasamningar hefðu verið brotnir og þá hefði verið hægt að segja þeim upp. Þessu hefði verið komið á framfæri á fundi eftir fund en Bretarnir virtust ekki reyna að skilja þetta. Þá hefði bankinn talið kröfurnar settar fram á afar hæpnum lagagrundvelli „Við upplifðum þetta sem aðför," sagði Sigurjón.
Þannig var staðan þegar haldinn var fundur 13. ágúst 2008, sem bankastjórar Landsbankans sátu ásamt ráðuneytisstjórum viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis til að undirbúa fund Björgvins G. Sigurðssonar, þáverandi viðskiptaráðherra, og Alistair Darling, þáverandi fjármálaráðherra Bretlands. Baldur Guðlaugsson sat þennan fund og einnig fund ráðherranna í Lundúnum.
Sagði Sigurjón að ljóst hefði verið á þessum tíma að málið var að færast yfir á hið pólitíska svið.
Sigurjón sagði aðspurður, að stjórnendur Landsbankinn hefðu fært sig nær kröfum breska fjármálaeftirlitsins og tekið meiri og meiri áhættu fyrir hönd bankans. Ekkert hefði hins vegar gerst um miðjan september, sem benti til þess að málið væri að leysast.
Sigurjón sagði um þá kröfu breska fjármálaeftirlitsins, að innlán á Icesave-reikningum Landsbankans í Bretlandi færu ekki yfir 5 milljarða punda, að ekki hefði verið komið að þessu marki. Hugmyndir voru um, að innlán yfir 5 milljarða yrðu lögð inn í Seðlabankann. Fram kom hins vegar að breska fjármálaeftirlitið hafnaði þessu.
Fjármálaeftirlitið tilkynnti um þá ákvörðun sína í ágúst að setja þak á innlánin. Sigurjón sagði hugsanlegt hafi verið að bankinn hefði samþykkt þetta. Hins vegar hefði fjármálaeftirlitið verið yfirvald, sem setti fram kröfur.
„Það er akkúrat vandinn þegar yfirvald hefur svo mikið vald að það getur hótað og það skiptir engu máli hvernig þú verð þig," sagði Sigurjón. Dómsmál, þótt miklar líkur væru taldar á sigri, hefði getað skaðað stöðu bankans verulega.
Gert er ráð fyrir að aðalmeðferð málsins verði haldið áfram eftir rúma viku en þá á að taka skýrslu af Halldóri Kristjánssyni, sem einnig var bankastjóri Landsbankans á þessum tíma.