Höskuldur með 2,9 milljónir á mánuði

Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka.
Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka. mbl.is/Eggert

Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arionbanka, mætti ekki á fund viðskiptanefndar Alþingis í morgun, þar sem óskað hafði verið eftir til að ræða uppgjör bankans. Forstöðumaður samskiptasviðs bankans segir að Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Arionbanka, hafi því farið á fundinn.

Iða Brá Benediktsdóttir, forstöðumaður samskiptasviðs Arionbanka, segir í samtali við mbl.is að fundarboðið hafi borist um tvöleytið í gær og að fyrirvarinn hafi verið skammur. 

Í fundarboðinu hafi aðeins verið tekið fram að ræða ætti ársreikninga Íslandsbanka og Arionbanka. „Okkur finnst því eðlilegt að framkvæmdastjóri fjármálasviðs fari á fundinn,“ segir Iða Brá.

Hærri launagreiðslur vegna sérstakrar eingreiðslu

Fram hefur komið að Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arionbanka, hafi verið með 4,3 milljónir kr. í laun í mánuði í fyrra.

Iða Brá segir að Höskuldur sé með 2,9 milljónir kr. í mánaðarlaun hjá bankanum. Hærri launagreiðslur á árinu 2010 skýrist af sérstakri eingreiðslu sem samið hafi verið um þegar Höskuldur lét af störfum sem forstjóri Valitors sl. sumar, en hann hóf störf hjá Arionbanka 1. júní í fyrra. 

Viðskiptanefnd hyggst koma aftur saman til fundar á föstudag.

Skv. upplýsingum frá Arionbanka hefur Höskuldur ekki verið boðaður á þann fund.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka