„Það eru aðgerðir í gangi núna hér heima,“segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. Hann segist þó ekkert geta tjáð sig frekar um hvort verið sé að handtaka fleiri menn hér á landi í tengslum við rannsókna á Kaupþingi banka.
Í fréttatilkynningu frá Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar (SFO) segir að tveir menn hafi verið handteknir hér á landi og sjö í London.
Ólafur Þór sagði í samtali við mbl.is í morgun að nokkrir starfsmenn embættis sérstaks saksóknara væru í London og væru SFO til aðstoðar. Einnig væru menn frá SFO staddir hér á landi.
Ólafur sagði að þessar aðgerðir tengdust ekki upplýsingum sem sérstakur saksóknari hefði fengið frá Lúxemborg, en embættið fékk nýlega mikið af göngum frá dótturfélagi bankans í Lúxemborg. „Þetta er bresk rannsókn,“ sagði Ólafur Þór.
Ólafur Þór sagði að þessar aðgerðir væru mjög umfangsmiklar, sem sæist best af því að 135 breskir lögreglumenn og starfsmenn SFO hefðu tekið þátt í þeim.