Enn aðgerðir í Bretlandi

Robert og Vincent Tchenguiz.
Robert og Vincent Tchenguiz.

Aðgerðir efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar vegna rannsóknar á Kaupþingi standa enn yfir. Lögreglumenn eru enn á skrifstofum kaupsýslumannsins Vincents Tchenguiz í Mayfair í Lundúnum og segjast verða þar fram á nótt.

„Lögreglan kom klukkan 6:30. Þeir fóru beint inn í skrifstofurnar og hafa verið þar síðan. Þeir sögðust verða þar í allan dag og fram á nótt eða þar til húsleitarheimildin rennur út," hefur fréttavefur Daily Telegraph eftir starfsmanni skrifstofunnar. 

Kona, sem vinnur í húsinu, þó ekki fyrir Tchenguiz, sagði við Telegraph, að þegar hún kom til vinnu í morgun hafi henni ekki verið hleypt inn. Lögreglumenn vakti lyftur og enginn óviðkomandi fái að fara inn eða út. 

Málið vekur að vonum mikla athygli í breskum fjármálaheimi enda eru bræðurnir  Vincent og Robert Tchenguiz, sem báðir voru handteknir og færðir til yfirheyrslu í morgun, þekktir kaupsýslumenn í Bretlandi. 

Financial Times segir á vef sínum, að Robert Tchenguiz hafi hvorki svarað símtölum né tölvupósti í morgun. Þá hafi staðið til, að Vincent Tchenguiz færi til Cannes í dag á ráðstefnu um fasteignaviðskipti. Enginn um borð í snekkju hans í  Cannes hafi hins vegar viljað tjá sig um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert