Trúnaðarupplýsingar en ekki verðmyndandi

Baldur Guðlaugsson ásamt lögmönnum sínum í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Baldur Guðlaugsson ásamt lögmönnum sínum í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/GSH

Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, sagði í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag,  að samskipti bankans við fjármálaeftirlitin í Bretlandi og á Íslandi árið 2008 hefðu verið bundin trúnaði.

Hins vegar hafi hann ekki talið að upplýsingar um að viðræður stæðu yfir um flutning Icesave-reikninga í dótturfélag væru verðmyndandi.

Halldór gaf skýrslu gegnum síma í máli ákæruvaldsins gegn Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins, en Halldór er búsettur Edmonton í Kanada.

Baldur er ákærður fyrir innherjasvik með því hafa hagnýtt sér innherjaupplýsingar, sem hann aflaði sér í starfi, og selt bréf, sem hann átti í Landsbankanum í september 2008. Halldór var síðasta vitnið í málinu og hófst málflutningur eftir að hann hafði gefið skýrslu sína.

Fundur 13. ágúst

Halldór var m.a. spurður um fund, sem hann og Sigurjón Þ. Árnason, hinn bankastjóri Landsbankans á þessum tíma, áttu 13. ágúst 2008 með þáverandi ráðuneytisstjórum viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis.

Sagðist Halldór telja, að tilefni fundarins hafi verið, að bankinn hafði átt bréfaskipti  við breska fjármálaeftirlitið um mánaðamótin júlí-ágúst. Breska fjármálaeftirlitið hefði sent fjármálaráðuneytinu í Bretlandi afrit af bréfi til bankans og því hefði það þótt kurteisi að upplýsa íslensku ráðuneytin um stöðuna.

Halldór sagði aðspurður, að staðan hefði einfaldlega verið sú, að þá voru hafnar að nýju viðræður um að dótturfélagavæða starfsemi Icesave-reikningana í Lundúnum, og færa hana undir Heretable bankann í Lundúnum og færa jafnframt eignir úr bankanum til dótturfélagsins.

Hann sagði að álitaefnin hefðu verið tiltölulega einföld. Breska fjármálaeftirlitið hefði gert kröfu um að eignir sem svöruðu til 20% af heildarskuldbindingum Landsbankans yrðu færðar til breska dótturfélagsins en aðeins hefði mátt færa eignir, sem svöruðu til 10% af heildarskuldbindingunum án samþykkis lánardrottna.

Þess vegna hefði Landsbankinn viljað færa eignirnar í tveimur áföngum á sitthvoru almanaksárinu til að brjóta ekki gegn ákvæðum í lánasamningum. Sagði Halldór, að fundurinn með ráðuneytisstjórunum hefði m.a. verið haldinn til að afla stuðnings stjórnvalda við þetta sjónarmið.

Djúpskoðun á Landsbankanum

Halldór sagði að viðræður bankans við breska fjármálaeftirlitið hefðu staðið yfir með hléum frá því í febrúar 2008. Um áramótin hefði farið fram svokölluð djúpskoðun á starfsemi Landsbankans í Bretlandi og niðurstaðan lá fyrir í febrúar. Sagði Halldór, að bankinn hefði almennt fengið góða umsögn en fjármálaeftirlitið viljað setja strangari skilyrði um lausaféð. Í maí náðist hins vegar samkomulag við fjármálaeftirlitið, sem dró til baka kröfu um að Icesave-starfsemin í Bretlandi yrði færð í breskt dótturfélag.

Björn  Þorvaldsson, saksóknari, spurði Halldór hvort viðræður bankans við fjármálaeftirlitið hefðu verið á fárra vitorði. Því svaraði Halldór játandi og sagði, að  það hafi verið eðli samskiptanna við fjármálaeftirlitin í Bretlandi og á Íslandi, að um þau ríkti trúnaður. Hefðu Landsbankamenn viljað gæta þess að tiltölulega fámennur hópur hefði þær upplýsingar á meðan málið væri  í vinnslu.

Karl Axelsson, verjandi Baldurs, spurði Halldór þá hvort hann teldi að skilgreina ætti þessar upplýsingar sen innherjaupplýsingar. Halldór sagðist ekki vera þeirrar skoðunar, að að það væru verðmyndandi upplýsingar að Landsbankinn og breska fjármálaeftirlitið stæðu í þessum viðræðum.

Halldór sagði, að það hefði verið vandasamt að verða við kröfum breska fjármálaeftirlitsins vegna þess að þá hefðu ákvæði í lánasamningum bankans verið í hættu. En á þessum tíma hefði margt óvenjulegt verið að gerast um allan heim í bankastarfsemi og erfiðleikar að aukast. Sagðist Halldór því ekki vita, hvort lánardrottnar hefðu gripið til aðgerða gegn bankanum.

Ýtrustu kröfur í bréfum

Þá sagði Halldór, að í bréfum bresku eftirlitsaðilanna hefðu gjarnan verið settar fram ýtrustu kröfur. Hins vegar hefðu fundir, sem stjórnendur Landsbankans áttu með stjórnendum bresku stofnananna einkennst vilja til samvinnu og lausna. Sér hefði verið ljóst. að Bretarnir myndu ekki knýja á um lausnir, sem bankinn gæti ekki staðið við.

Halldór sagði síðasta tilraunin til að ná samkomulagi hefði verið gerð að kvöldi sunnudagsins 5. október 2008 þegar haldinn var langur símafundur þar sem enn og aftur var reynt að finna flöt á flutningi Icesave-reikninganna en án árangurs. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert