Munur á innherja- og trúnaðarupplýsingum

Baldur Guðlaugsson og verjendur hans í Héraðsdómi Reykjavík í dag.
Baldur Guðlaugsson og verjendur hans í Héraðsdómi Reykjavík í dag. mbl.is/GSH

Karl Axelsson, verjandi Baldurs Guðlaugssonar, sagði í málflutningi í Héraðsdómi Reykjavíkur að ákæruvaldið virtist ekki gera greinarmun á trúnaðarupplýsingum og innherjaupplýsingum í máli sínu gegn Baldri.

Karl krafðist þess að Baldur yrði sýknaður af ákæru fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi og að kröfu um upptöku söluandvirðist hlutabréfa, sem Baldur seldi í Landsbankanum 17. og 18. september 2008 verði vísað frá.

Sagði Karl að meta þurfi upplýsingar á grundvelli þess, sem atvinnufjárfestir hefði mátt sjá í hendi sér. Engar þær upplýsingar, sem lægju til grundvallar ákærunni, teldust vera þannig að þær væru líklegar til að geta haft áhrif á fjárfesta og hinn skynsami fjárfestir á þeim tíma, sem Baldur seldi bréfin, hefði tekið tillit til aðstæðna. 

Þá sagði Karl, að upplýsingar um að yfir stæðu viðræður milli Landsbankans og breska fjármálaeftirlitsins um að flytja Icesave-reikningana yfir í dótturfélag hefðu hugsanlega haft jákvæð áhrif á gengi hlutabréfa bankans.

Björn Þorvaldsson, saksóknari, sagði hins vegar að því hefði ekki verið haldið fram fram að trúnaðarupplýsingar væru innherjaupplýsingar. En ljóst væri, að Baldur hefði búið yfir upplýsingum sem markaðurinn vissi ekkert um, hvorki almennir fjárfestar né atvinnufjárfestar. 

Þessar upplýsingar hefðu ekki verið opinberar og ekki aðgengilegar yfir höfuð og þess vegna væru þær innherjaupplýsingar. Baldur hafi því ekki getað selt bréf sín í bankanum nema fremja brot sem varðaði allt að 6 ára fangelsi.

Um bótakröfu ákæruvaldsins sagði Karl, að samkvæmt skattframtali Baldurs hefði söluhagnaður af sölu bréfanna numið rúmlega 171 milljón króna. Björn sagði að til greina kæmi að miða upptökukröfu ákæruvaldsins við þá upphæð.

Málið var tekið til dóms í dag og mun Guðjón Marteinsson, héraðsdómari kveða upp dóm á næstu vikum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka