Rafstrengur til Bretlands?

Bretar hafa rætt þá hugmynd við íslensk orkufyrirtæki um að leggja neðansjávar-rafstreng á milli landanna tveggja til þess að flytja jarðvarmaorku frá Íslandi til Bretlands.

Þetta kom fram í skriflegu svari Charles Hendry, orkumálaráðherra Bretlands, við fyrirspurn á breska þinginu.

Rafstrengurinn þyrfti að vera rúmlega 1600 kílómetrar að lengd, en aldrei hefur svo langur rafstrengur verið lagður neðansjávar í heiminum.

Hendry segir í svari sínu ekki hafa setið fund með Katrínu Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra, vegna málsins en embættismenn hafa rætt við íslensk orkufyrirtæki. Hann segir að á fundi leiðtoga Norðurlanda, Eystrasaltsríkja og Bretlands, sem haldinn var í janúar á þessu ári, hafi verið ákveðið að löndin skyldu vinna saman að sameiginlegum hagsmunum, þar á meðal að finna leiðir til þess að draga úr losun kolefna í andrúmsloftið.

Orkumálaráðherrann bendir á að hindranir gætu staðið í vegi fyrir því að rafstrengurinn verði lagður. Leysa þurfi reglugerða-, tækni-, lagaleg- og viðskiptamál áður en nokkur ákvörðun verður tekin. 

Landsvirkjun tilkynnti fyrr í þessum mánuði að fyrirtækið væri að hefja rannsókn á því hvort hagkvæmt sé að leggja 600 til 1000 megavatta rafstreng frá Íslandi til Evrópu. Rannsóknin hefst um mitt þetta ár og mun henni ljúka í árslok. „Rætt hefur verið um neðansjávar-rafstreng á milli Íslands og nágrannalanda í áratugi,“ segir í tilkynningu frá Landsvirkjun. Þar kemur einnig fram að ýmsar rannsóknir hafi verið framkvæmdar á verkefninu, og hafa þær sýnt að hægt sé að ráðast í verkefnið þegar litið er til tæknilegra hlutans, en aðra sögu er að segja um fjárhagslegu hliðina. Fyrirtækið bendir þó á að fjárhagsmálin séu að breytast sökum aukinnar eftirspurnar eftir endurnýjanlegri orku.

Ef af hugmyndinni verður mun orka berast frá Íslandi til meginlands Evrópu árið 2020. Rannsóknir tækju fjögur til fimm ár og framkvæmdirnar svipaðan tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert