Endurskoði skólatillögur

Kennari að störfum í Öskjuhlíðarskóla þar sem fötluð börn stunda …
Kennari að störfum í Öskjuhlíðarskóla þar sem fötluð börn stunda nám. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Samþykkt var harðorð ályktun á fundi sem ráðamenn Reykjavíkur efndu til í dag með foreldrum í Laugardal, Háaleiti og Bústaðahverfi til að ræða hugmyndir um sameiningu skóla. Er skorað á borgina að endurskoða hugmyndirnar.

,,Opinn fundur með foreldrum leik- og grunnskólabarna í Laugardal, Háaleiti og Bústaðahverfi laugardaginn 19. mars í Réttarholtsskóla skorar á borgarstjórn Reykjavíkur að endurskoða fyrirhuguð sameiningar- og breytingaráform í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum borgarinnar," segir í ályktuninni.

 ,,Við höfnum framkomnum tillögum um breytingar á skólastarfi í ljósi þess bráðræðis og fums sem einkennt hefur allan aðdraganda þessa máls. Að okkar mati er fjárhagslegur ávinningur af breytingunum alltof lítill og óljós miðað við þá röskun á skólastarfi sem búast má við í kjölfarið.

Ekkert samráð né samstarf hefur verið haft við foreldra og foreldrafélög skólanna við gerð þessara tillagna. Foreldrar vilja heilshugar setjast niður með fulltrúum borgarinnar í góðu tómi og komast að sameiginlegri niðurstöðu sem er góð fyrir fjárhag borgarinnar, nærsamfélög skólanna, faglegt starf þeirra og síðast en ekki síst börnin okkar."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert