Stjórn VÍR, nemendafélags rafmagns- og tölvuverkfræðinema, gerir athugasemdir við frétt sem birtist á mbl.is undir yfirskriftinni „Kvenfyrirlitning í verkfræðinámi“. VÍR segir umfjöllunina einhliða og hafna ásökunum um kvenfyrirlitningu.
Segir stjórnin að í fréttinni sé gefið til kynna að ástandið sem Hrafnhildur Snæfríðar- og Gunnarsdóttir lýsi í fréttinni eigi við núverandi nemendur deildarinnar.
VÍR bendir á að í fyrsta lagi sé sú ályktun byggð á 1-2 nafnlausum viðtölum. Í öðru lagi hafi ekki komið fram að þetta séu núverandi nemendur við deildina og telur stjórnin að það sé mjög ólíklegt.
„Einnig er í fréttinni minnst á yfirlýsingu frá VÍR, þar sem gefið er til kynna að við séum að segja að hingað til hafi viðgengist hefðir sem feli í sér kvenfyrirlitningu. Raunin er sú að í yfirlýsingunni (sem að sjálfsögðu tekur aðeins til núverandi nemenda), þá höfnum við því að þessar lýsingar hennar Hrafnildar eigi við deildina okkar,“ segir í athugasemd sem barst mbl.is.