Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Þorvarð Davíð Ólafsson í 14 ár fangelsi fyrir tilraun til manndráps, en hann réðist á föður sinn, Ólaf Þórðarson tónlistarmann.
Þorvarður var ákærður fyrir tilraun til manndráps, en til vara stórfellda líkamsárás, með því að hafa sunnudaginn 14. nóvember veist með ofbeldi að föður sínum m.a. sparkað í maga hans, tekið hann hálstaki, kýlt hann tvisvar í höfuð með hnúajárni svo hann féll og þar sem hann lá upp við steyptan arin, sparkað ítrekað í andlit hans þannig að höfuðið kastaðist í arininn og ítrekað stappað og hoppað ofan á höfði hans og hálsi og ekki hætt fyrr en hann rann til í blóði.
Af atlögunni hlaut Ólafur lífshættulegan höfuðáverka, útbreidda áverka á höfði, marbletti og skurði, blæðingar í heilavef og fyrir utan heila. Fram kemur í dómnum, að Ólafur er enn meðvitundarlaus og horfur eru mjög slæmar varðandi að hann nái sér nokkurn tíma eftir þetta.
Dómarinn taldi að hending ein hafi ráðið að ekki hlaust bani af hinni ofsafengnu árás. „Það er mat dómsins að ákærði eigi sér engar málsbætur og ber hann fulla refsiábyrgð.“
Þorvarður Davíð var metinn sakhæfur. Hann játaði að hafa ráðist að föður sínum, en neitaði að fyrir honum hefði vakið að ráða honum bana. Dómarinn segir að margt bendi til þess að um hríð hafi búið með Þorvarði ásetningur um að vinna föður sínum mein en tvíburabróðir hans bar um þetta fyrir dóminum. „Þótt ekki sé með vissu hægt að slá því föstu að ásetningur ákærða hafi verið til staðar um að ráða föður sínum bana er hann kom til hans að Urðarstíg 4, 14. nóvember síðastliðinn, telur dómurinn hins vegar ljóst að sá ásetningur myndaðist eftir komu ákærða þangað.“