„Augu heimsins hvíla nú á íslensku þjóðinni, sem hefur hingað til hafnað öllum Icesave-kröfum; kröfum um að ganga í skilyrðislausar ábyrgðir fyrir fjármálageirann. Það er mín von að þessi jákvæði baráttuandi muni hafa yfirhöndina í þjóðaratkvæðagreiðslunni.“
Þannig skrifar Eva Joly, þingmaður á Evrópuþinginu og fv. ráðgjafi sérstaks saksóknara, í grein í Morgunblaðinu í dag í tilefni Icesave-kosninganna á morgun.
„Kröfurnar á Ísland eru gríðarlega háar í ljósi smæðar þjóðarinnar. Icesave-skuld upp á 3,5 milljarða punda er samsvarandi kröfu um að breskir skattgreiðendur greiddu 700 milljarða punda. Þessi krafa er umdeild og ég tel hana hvíla á vafasömum lagagrunni, svo vægt sé til orða tekið, að ekki sé minnst á hin siðferðilegu rök,“ skrifar Joly.
Hún heldur áfram og bendir á að Írar, Grikkir og Portúgalar og aðrar Evrópuþjóðir hafi verið „þvingaðar til þess að ganga í ótakmarkaðar ábyrgðir allra lána sem stofnað var til af aðilum á markaði og þannig firrt bæði fjármálastofnanir og skuldabréfaeigendur allri ábyrgð... Það er í þessu samhengi sem þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave er bæði táknræn og mikilvæg fyrir Evrópu og heiminn allan“.