Í könnun, sem ASÍ gerði á verði á páskaeggjum í 4 lágvöruverðsverslunum og 4 þjónustuverslunum víðsvegar um landið, var Bónus með lægsta verðið á 13 páskaeggjum af 22.
Af þeim 15 eggjum sem voru til bæði í Bónus og Krónunni var aðeins einnar krónu verðmunur á 12 tegundum.
Samkaup – Úrval var með hæsta verðið á 13 eggjum af 22, en Hagkaup var næst oftast með hæsta verðið eða í 8 tilvikum.
Mestur verðmunur í könnuninni reyndist á páskaeggi númer 7. frá Nóa Síríusi, sem var dýrast á 3289 krónur í Samkaupum Úrvali en ódýrast 2398 krónur í Kosti. Verðmunurinn er 891 króna eða 37%.
Mikill verðmunur var einnig á Páskaeggi númer 3. frá Nóa Síríus sem var dýrast á 799 krónur í Hagkaupum en ódýrast á 589 krónur í Bónus. Þar munar 210 krónum eða 36%.
Minnstur verðmunurinn í könnuninni reyndist vera á 325 gr. karamellukurl páskaeggi frá Nóa Síríus, sem var dýrast á 1299 krónur í Hagkaupum en ódýrast á 1189 krónur í Nettó Mjódd. Verðmunurinn er 110 krónur eða 9%.
Freyju fjöregg án mjólkur númer 6. var ódýrast á 1379 krónur í Bónus og dýrast á 1799 krónur í Hagkaupum. Verðmunurinn er 420 krónur eða 30%. Góu fígúru páskaegg númer 4. var ódýrast á 939 krónur í Bónus en dýrast á 1119 kr. í Samkaupum-Úrvali. Verðmunurinn var 28%.
Flest eggin í könnuninni voru fáanleg í verslunum Nettó og Fjarðarkaupa sem áttu öll eggin sem skoðuð voru, Hagkaup áttu til 21 tegund af 22. Fæst eggjanna voru fáanleg í Kosti Kópavogi eða 10 talsins og Nóatún átti 14 tegundir.
Víðast lækkaði verð páskaeggjanna á milli ára nema hjá Bónus og Krónunni en þar hefur verð lítið breyst.
Páskaegg númer 4 frá Nóa Síríusi hækkaði um 3% hjá Samkaupum-Úrvali og 2% hjá Bónus, en lækkaði um 11% hjá Nóatúni, 8% hjá Nettó, 5% hjá Kosti og 3% hjá Fjarðarkaupum.
Mesta hækkunin á milli ára var hjá Hagkaupum sem hækkuðu verð á Freyju fjöreggi án sykurs og Freyju fjöreggi án mjólkur um 20%. Mesta lækkunin á milli ára var á páskaeggi frá Nóa Síríus með frönsku núggati, en það lækkaði um 15% hjá Nettó á milli ára.