Fluttur til Reykjavíkur

Huginn VE á veiðum
Huginn VE á veiðum mbl.is/Ágúst Ingi

Einn mannanna þriggja sem urðu fyrir kolsýringseitrun verður fluttur til frekari rannsókna á Landspítalann í Reykjavík. Þeir eru allir komnir til meðvitundar og talið að þeir nái sér að fullu. Snör handtök skipverja komu í veg fyrir að ekki fór verr.

Upphaflega barst tilkynning um að tveir skipverjar hefðu orðið fyrir eitrun, en á daginn kom að þeir voru þrír. Mennirnir höfðu verið að störfum í vélarrúm Hugins VE í Vestmannaeyjahöfn þegar losnaði um tank og kolsýringur gaus upp.

Einn mannanna stóð innan við einn metra frá uppstreymingu og missti meðvitund nánast samstundis. Hinir tveir stóðu lengra frá og vönkuðust. Þeir náðu hins vegar fljótt áttum. Að sögn vakthafandi læknis á heilbrigðisstofnuninni í Vestmannaeyjum brugðust þeir hárrétt við aðstæðunum.

Mennirnir kölluðu strax eftir aðstoð og settu þá upp svokallaðar flóttagrímur, grímur sem innihalda lítið súrefni en á að gefa mönnum kost á að flýja t.d. reykeitrun. Þeir settu einnig grímu á félaga sinn sem lá meðvitundarlaus. Þá var loftað út eins og kostur var á.

Aðstæður voru mjög erfiðar í skipinu og erfitt að koma sjúkrabörum fyrir. Ákveðið var að gefa hinum meðvitundarlausa súrefni á staðnum áður en reynt var að flytja hann burt.

Mennirnir voru allir fluttir á heilbrigðisstofnunina og eru þeir nú allir með meðvitund. Sá sem verst varð úti verður fluttur til frekari skoðunar á Landspítalann í Reykjavík, en hinum tveimur verður gefið súrefni og fylgst með líðan þeirra. Enginn mannanna er í hættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert