Ísland þarf að ganga í gegnum hagvaxtarskeið með 4-5% hagvöxt á ári í nokkur ár til þess að kaupmáttur almennings styrkist, að mati Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.
Að öðrum kosti óttast Vilhjálmur að kjörin standi í stað en hann bendir jafnframt á að hagvöxtur upp á 2-3% dugi ekki til að koma atvinnuleysinu niður í það horf sem aðilar vinnumarkaðarins einsetji sér.
Hætta á sundrung og upplausn
„Þessi mál verða að skýrast eftir páskana. Annars er hætta á að samningar fari út í upplausn og að sú samstaða sem verið hefur á vinnumarkaði rofni. Við þurfum að finna lendingu í stóru málunum sem snúa að fjárfestingunum.
Manni finnst erfitt að kyngja því að verið sé að leggja fram spár um hagvöxt sem fela í sér að við eigum að vera að hjakka áfram í sama farinu með atvinnuleysið í þeim hæðum sem það er og sjá ekki til lands í viðleitni okkar til að auka kaupmáttinn og tekjurnar,“ segir Vilhjálmur.
„Við sjáum möguleikana í orkumálum, í sjávarútvegi og hjá fyrirtækjunum sem gætu rifið okkur upp úr þessu fari þannig að við færum að horfa upp á 4-5% hagvöxt. Ef við næðum 3-4 árum með slíkum hagvexti værum við komin á þokkalegt skrið.“
- Erum við hægt og sígandi að stefna að fátækara samfélagi?
„Við gætum alveg verið það því mér finnst sem að fjárfestingarnar séu að teppast af pólitískum ástæðum. Það er verið að halda sjávarútvegi niðri á pólitískum forsendum. Hér eru gjaldeyrishöft og fjármagnsmarkaðurinn er höktandi. Hann er ekki enn þá kominn á eðlilegt ról. Það er svo margt sem að maður sér að er ekki í lagi hjá okkur en gæti vel verið í lagi,“ segir Vilhjálmur Egilsson.