Lýðheilsustöð sameinast embætti landlæknis

Lög um sameiningu embættana voru samþykkt á Alþingi fyrr á …
Lög um sameiningu embættana voru samþykkt á Alþingi fyrr á þessu ári. mbl.is/Kristinn

Lýðheilsustöð sameinaðist embætti landlæknis með formlegum hætti í gær. Lög þessa efnis voru samþykkt á Alþingi fyrr á árinu.

Í lögunum segir að markmið þeirra sé „að stuðla að heilbrigði landsmanna, m.a. með því að efla lýðheilsustarf og tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og stuðla að því að lýðheilsustarf og heilbrigðisþjónusta byggist á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma.”

Undirbúningur sameiningar hefur staðið yfir allt frá ársbyrjun 2010. Unnið er að því að finna embættinu nýtt húsnæði og niðurstöðu er fljótlega að vænta. Fyrst um sinn mun starfsemi hins stækkaða embættis landlæknis fara fram á tveimur starfsstöðvum, þ.e. hjá Landlæknisembættinu að Austurströnd 5 á Seltjarnarnesi og hjá fyrrum Lýðheilsustöð að Laugavegi 116 og verður starfsemin óbreytt á hvorum stað. Þessi tilhögun verður höfð á þar til endurskipulagning á starfi embættisins liggur fyrir í sameiginlegu húsnæði.

Vefsetur Landlæknisembættisins verður starfrækt óbreytt enn um sinn en hægt verður að nálgast efni af vefsetri fyrrum Lýðheilsustöðvar á slóðinni www2.lydheilsustod.is. Fyrirhugað er að opna nýjan og endurskipulagðan vef bráðlega þar sem efni af vefjunum tveimur verður sameinað.

Símaþjónusta verður veitt á báðum starfsstöðvum og símanúmer verða óbreytt, 510 1900 á Austurströnd 5 og 5800 900 á Laugavegi 116. Netföng allra starfsmanna hins stækkaða embættis haldast einnig óbreytt fyrst um sinn.

Embætti landlæknis var stofnað árið 1760 og hélt því upp á 250 ára afmæli sitt á síðastliðnu ári. Sú sameining sem nú er staðreynd er því enn ein varðan í langri sögu skipulagðrar heilbrigðisþjónustu hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert