Sjávarútvegsfyrirtækið Samherji hefur keypt eignir Brims á Akureyri og fær nýtt dótturfyrirtæki Samherja heitið Útgerðarfélag Akureyringa. Um er að ræða fiskvinnslu á Akureyri og Laugum ásamt vélum og tækjum, ísfisktogarana Sólbak EA 1 og Mars RE 205, sem áður hét Árbakur, auk veiðiheimilda. Starfsmenn Brims á Akureyri og á Laugum eru um 150.
Gengið var frá kaupunum um helgina. Haldinn verður fundur með starfsmönnum í dag til að kynna þeim breytingarnar en fram kemur í fréttatilkynningu að í ljósi yfirlýsinga stjórnvalda sé gert ráð fyrir að hægt verði að halda áfram þeirri starfsemi sem nú er hjá fyrirtækinu.
Kaupverðið er 14.500 milljónir króna, Samherji leggur fram eigið fé að fjárhæð 3.600 milljónir, sem að hluta er fjármagnað með sölu erlendra eigna. Landsbankinn fjármagnar 10.900 milljónir og verður viðskiptabanki nýs félags.
Forveri Brims, Tjaldur, keypti árið 2004 ásamt KG Fiskverkun á Rifi Útgerðarfélag Akureyringa af Eimskip og var kaupverðið um níu milljarðar.
Í fréttatilkynningu er haft eftir Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, að fyrirtækið hafi lítið sem ekkert fjárfest í sjávarútvegi á Íslandi síðustu árin en þeim mun meira erlendis. „Rætur okkar liggja hér,“ segir Þorsteinn Már. „Þegar þetta tækifæri kom upp hér á heimaslóð fannst okkur, þrátt fyrir að blikur séu á lofti í útveginum, rétt að stíga fram og leggja okkar af mörkum til að ekki verði frekari röskun á atvinnu og lífskjörum hér á svæðinu en orðin er.“