Mehdi Kavyanpoor, sem hótaði að kveikja í sér á skrifstofum Rauða krossins í dag, hafði verið boðaður á fund með Útlendingastofnun klukkan 10 í dag þar sem átti að fara yfir næstu skref í umsókn hans um dvalarleyfi. Hann hafði sótt um dvalarleyfi á grundvelli nýrrar greinar í lögum um útlendinga.
Að sögn Kristínar Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, eru um 20 útlendingar í þeirri stöðu að hafa verið synjað um dvalarleyfi hér á landi en eru engu að síður enn á landinu. Nokkrir þeirra hafa sótt um dvalarleyfi á grundvelli sömu lagagreinar og Kavyanpoor.
Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum lagði Kavyanpoor hart að starfsmönnum Rauða krossins að halda sig fjarri honum. Það hafi greinilega ekki vakað fyrir honum að skaða aðra, hvað sem hefði gerst ef hann hefði borið eld að fötum sínum.
Hæstiréttur staðfesti í október sl. þá ákvörðun Útlendingaeftirlitins að synja Kavyanpoor um hæli hér á landi á grundvelli þess að hann væri flóttamaður.
Kristín Völundardóttir segir að hann hafi í janúar sl. óskað eftir dvalarleyfi á grundvelli 4. málgreinar, 12. greinar f, í lögum um útlendinga en hún tók gildi í október í fyrra. Á fundinum sem átti að vera í morgun átti að leiðbeina honum um næstu skref í málinu.
Haft var samband við Útlendingastofnun eftir að Kavyanpoor hafði komið á skrifstofur Rauða krossins og fór starfsmaðurinn sem hugðist hitta hann í morgun þegar af stað þangað. Hann ræddi við Kavyanpoor, ásamt starfsmanni Rauða krossins, en eins og nærri má geta reyndu þeir að tala hann ofan af því að láta verða af hótunum sínum. Lögregla greip síðan í taumana, eins og áður hefur komið fram.
Samkvæmt 4. mgr. 12. gr f. í lögum um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem haft hefur dvalarleyfi á meðan á umsókn hans stendur, í tvö ár hið minnsta dvalarleyfi ef öðrum skilyrðum er fullnægt.