Lögfræðingur Íranans Mehdi Kavyanpoor hafði látið Rauða krossinn og Útlendingastofnun vita að andlegt ástand hans væri afar slæmt og að hann kynni að grípa til örþrifaráða. Af þessum sökum voru löreglumenn til taks hjá Útlendingastofnun í morgun, m.a. af ótta við að Kavyanpoor myndi fremja þar sjálfsvíg.
Leita átti á honum áður en fundur með starfsmanni Útlendingastofnunar hæfist.
Helga Vala Helgadóttir, lögfræðingur mannsins, segist hafa fundið það á sér fyrir nokkrum dögum að Kavyanpoor væri í miklu uppnámi vegna þeirrar stöðu sem mál hans hafi verið í. Hann hafi m.a. verið ósáttur við að vera enn krafinn um ný gögn, þrátt fyrir að mál hans hafi verið rannsakað allt frá árinu 2005 þegar hann kom hingað fyrst. Hún hafi látið Rauða krossinn og Útlendingaeftirlitið vita og hafi vitað til þess að lögreglu hafi einnig verið gert viðvart.
Kavyanpoor er nú í vörslu lögreglu og hefur ekki verið tekin af honum skýrsla, að sögn Helgu Völu.
Leiða má að því líkum að Kavyanpoor verði úrskurðaður í e.k. vistun á heilbrigðisstofnun.
Kavyanpoor skilaði inn umsókn um dvalarleyfi í byrjun þessa árs. Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, segir að málsmeðferðarhraðinn ráðist af álagi á stofnunina sem sé mjög mikið. Þegar öll gögn liggi fyrir geti málsmeðferð tekið 8-12 vikur en í þessu tilviki hafi ekki öll gögn verið til staðar.
Hún vill ekki ræða nákvæmlega um hvaða gögn vanti, enda hafi það ekki enn verið kynnt fyrir Kavyanpoor.