Mun sækja skaðabætur

Anna Kristín Ólafsdóttir.
Anna Kristín Ólafsdóttir.

Anna Kristín Ólafsdóttir stjórnsýslufræðingur hyggst sækja skaðabætur vegna ráðningar í stöðu skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu. Kærunefnd jafnréttismála hefur úrskurðað að ráða hefði átt Önnu þar sem hún hafi verið jafnhæf hið minnsta og sá sem var ráðinn.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra skipaði rýnihóp til að fara yfir málið eftir úrskurð kærunefndar. Hún ákvað í gær, með hliðsjón af skýrslu rýnihópsins, að leita sátta um málið „þótt ýmis atriði hefðu getað réttlætt málshöfðun til ógildingar úrskurði kærunefndar jafnréttismála, m.a. að mati ríkislögmanns,“ eins og sagði í tilkynningu frá ráðuneyti hennar í gær. Einnig sagði þar að mismunandi niðurstöður kærunefndar og ráðuneytis væru til komnar vegna ólíkra aðferða við að meta hæfni umsækjenda, en ekki vegna þess að hæfasti umsækjandinn hefði ekki verið skipaður. Ekki fólst því í yfirlýsingu ráðuneytisins mikil viðurkenning á mistökum.

Anna Kristín segir vinnubrögð forsætisráðherra snautleg. „Úrskurðarnefnd jafnréttismála er skipuð af Hæstarétti og lög gera ráð fyrir því að ef þú ert ósáttur við niðurstöðu hennar getirðu borið hana undir dómstóla. Það kýs forsætisráðherra að gera ekki, heldur handvelur hún fólk í svokallaðan óháðan rýnihóp, sem í situr reyndar einstaklingur sem búinn var að tjá sig um málið áður,“ segir hún.

„Ég hefði líka getað sett rýnihóp í málið enda í góðum tengslum við marga framúrskarandi sérfræðinga í mannauðsstjórnun og lögum. Það ætla ég hins vegar ekki að gera heldur fylgja lögum og reglum réttarríkisins og fara fram á skaðabætur. Ég er að sjálfsögðu ávallt reiðubúin til samninga, en ef skaðabætur eru ekki í boði á grundvelli samninga þá fer ég með málið fyrir dómstóla. Lögin gera ráð fyrir því.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka