Launalækkanir verði afturkallaðar

Félag forstöðumanna ríkisstofnanna krefst þess að kjararáð afturkalli án frekari tafa launalækkun frá 1. mars 2009 og að afturköllun gildi frá 1. desember 2010. FFR segir sinnuleysi kjararáðs ómálefnanlegt og andstætt lögum. Verði ekki orðið við kröfunum sé eðlilegt að þeim sé fylgt eftir með málsókn.

Jafnframt er þess krafist að laun og starfskjör forstöðumanna ríkisstofnana verði þegar í stað endurskoðuð.

Þetta kemur fram í ályktun sem var samþykkt samhljóða á aðalfundi FFR í dag.

Fram kemur að laun forstöðumanna ríkisstofnana hafi lögum samkvæmt verið lækkuð um 5-15% 1. mars 2009 og hafi síðan haldist óbreytt. Lögin hafi verið samþykkt á Alþingi í desember 2008 og hafi upphaflega átt að gilda til ársloka 2009, en ári síðar hafi þau verið framlengd til 30. nóvember 2010 með nýjum löggum.  

Á aðalfundinum var jafnframt Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands, endurkjörinn formaður félagsins, en auk hans voru kjörin í stjórn þau Anna Birna Þráinsdóttir, sýslumaður í Vík, Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, Ingibjörg Sverrisdóttir landsbókavörður, Magnús Skúlason, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Már Vilhjálmsson, skólameistari Menntaskólans við Sund, Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, og Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert