Lýðræðið sigrar peningaöflin

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.

„Ef ég á að velja á milli krafna markaðarins og lýðræðisins verð ég að velja lýðræðið,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í viðtali við portúgalska vikuritið Visáo. Lýsti forsetinn þar hvernig kröfur lýðræðisins hafi orðið kröfum markaðarins yfirsterki í þeirri ákvörðun að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave.

Forsetinn segir Icesave-deiluna vekja upp ýmis álitaefni.

„Hún vekur einnig spurningar um hversu langt sé hægt að ganga svo lögmætt sé í þá átt að fara þess á leit að alþýða manna - bændur, sjómenn, hjúkrunarkonur og kennarar - greiði með sköttum sínum til 30 ára fyrir mistök einkabanka. Eðli evrópska bankakerfisins er þetta: Ef bönkum gengur vel er bankamönnum umbunað með ríflegum bónusgreiðslum og hluthafarnir fá arðgreiðslur. Ef reksturinn hins vegar bregst er reikningurinn sendur til alls almennings.“

Ekki síður lýðræðis- en fjármálakreppa 

Ólafur Ragnar, sem var áður stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, lagði síðan fram þá stöðugreiningu að horfa verði til lýðræðisins, ekki síður en fjármálalífsins, við greiningu á hruninu.

„Segja má að þetta hafi verið fjármálakreppa. En við getum einnig sagt að þetta hafi í grundvallaratriðum verið lýðræðiskreppa. Þegar við ákváðum að leggja spurninguna fram í þjóðaratkvæðagreiðslu ... og valið stóð á milli þess að huga að kröfum fjármálamarkaða annars vegar og lýðræðisins hins vegar varð ég að velja lýðræðið. Það er vegna það að lýðræðið er meiri grundvallarþáttur í samfélagi okkar en markaðirnir.“

Ísland fljótara að vinna sig út úr kreppunni

Aðspurður hvort hann sjái fyrir sér einhvers konar samstarfsvettvang á milli Íslands og annarra skuldsettra ríkja leggur forsetinn áherslu á þann lærdóm sem draga megi af íslenska fjármálahruninu. 

„Við höfum komist að því að kreppan var ekki aðeins efnahagslegs eða viðskiptalegs eðlis. Hún var einnig djúpstæð stjórnmálaleg og félagsleg kreppa. Við horfðum fram á kröfugöngur, mótmæli, jafnvel ofbeldi, sem aldrei hafði áður sést. Að takast á við slíka kreppu er ekki aðeins efnahagslegt viðfangsefni heldur að stærstum hluta lýðræðislegt og félagslegt úrlausnarefni. Og ein af ástæðunum fyrir því að Ísland er komið út úr kreppunni fyrr og með meiri staðfestu en önnur ríki er sú að við höfum einnig tekið á þeirri lýðræðislegu og félagslegu áskorun sem við stóðum frammi fyrir.“

Bætir forsetinn því svo við að fjármálaráðherrar og bankamenn þurfi að funda meira og leita þannig leiða til lausnar á fjármálakreppunni. „Við verðum að skilja að kreppan var áfall fyrir borgarana. Við þurfum að styrkja almannaviljann og lýðræðisríkið í sessi. Hvort sem það er í samvinnu við önnur ríki eða ein og sér,“ sagði forsetinn.

Býðst til að taka þátt í viðræðum 

Forsetinn segir rangt að láta almenning greiða fyrir tap einkafyrirtækja. 

„Við getum ekki búið við kerfi þar sem einkafyrirtæki bregðast og ábyrgðinni er velt yfir á alþýðuna. Ísland var lítil tilraunastofa fyrir öll þessi viðfangsefni: Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, fjármálakreppu, þjóðfélagskreppu. Þetta er lítil tilraunastofa þar sem auðveldara er að greina það sem fram fer. Ég lýsi mig reiðubúinn til viðræðna um reynslu okkar.“

Stoltur af íslensku þjóðinni

Forsetinn lýkur lofsorði á þær umræður sem sköpuðust á milli fylgjenda og andstæðinga Icesave-samninganna en þær eru í hópi þeirra heiftugustu sem sést hafa á lýðveldistímanum.

„Út frá langri reynslu minni af störfum fyrir hið opinbera verð ég að segja að ég hef aldrei séð svo djúpa og víðfeðmar viðræður á milli borgaranna og nú. Og þær hafa sýnt fram á að venjulegt fólk getur myndað sér skoðun og tekið ákvörðun í svona flóknu máli. Ég er mjög ánægður með og jafnvel stoltur af almenningi í mínu landi. Mér var sagt að almenningur gæti ekki skorið úr um slík álitamál, vegna þess að hann skorti þekkinguna. Nú hafa borgararnir hins vegar orðið að sérfræðingum.“

Hefðum átt að lesa Karl Marx

Þá er forsetinn spurður hvort fjármálakreppan hafi haft mótandi áhrif á skoðanir hans og afstöðu til fjármálamarkaða.

„Vissulega. Með einum eða öðrum hætti höfum við öll verið undir áhrifum af þeirri stefnu að lágmarka afskipti ríkisins af mörkuðum [laissez-faire] á síðustu þremur áratugum, á skeiði Reagans og Thatcher. Forsendan var sú að þeim mun lengra sem gengið væri í að afnema regluverkið og í einkavæðingu því betra væri það fyrir efnahagslífið. Nánast allir tóku upp þá stefnu. Það sem við höfum séð er að áður en kerfið brást svo geigvænlega, að ef til vill hefðum við átt að lesa meira í verkum Adam Smith og Karl Marx á síðustu 30 árum,“ segir forsetinn og hlær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert