Erlendir fjölmiðar hafa mikinn áhuga á eldgosinu í Grímsvötnum og velta fyrir sér áhrif þess á flugumferð. Ekkert bendir enn til þess að gosið komi til með að hafa áhrif á flugumferð í Evrópu. Ekki er hins vegar útilokað að gosið hafi áhrif á flug hér á landi.
Sjö flugvélar eiga að lenda á Keflavíkurflugvelli fyrir hádegi og 12 flugvélar fara frá flugvellinum. Ekki liggur annað fyrir en vélarnar verði allar á áætlun.
Eldgosið í Eyjafjallajökli hafði í för með sér gríðarlega mikla röskun á flugi og leiddi til mikilla óþæginda fyrir farþega. Flugfélögin töpuðu líka gríðarlegum upphæðum á gosinu.
Fyrstu vísbendingar benda til þess að askan frá gosinu sé ekki eins fíngerð og frá gosinu í Eyjafjallajökli og því dreifist hún ekki eins mikið. Gosmökkurinn frá Grímsvatnagosinu er hins vegar mjög hár, en hann náði um 20 km hæð í gærkvöldi.