Vilja ekki leyfa lundaveiði

Lundar.
Lundar. mbl.is/Eggert

Náttúrustofa Suðurlands leggur til að ekki verði leyft að tína svartfuglsegg í Vestmannaeyjum í ár og að engin lundaveiði verði leyfð næstu ár.

Í bréfi, sem stofnunin hefur sent til umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja er m.a. vísað til þess að viðkomubrestur hafi verið viðvarandi hjá lundanum frá 2005 eða í sex ár samfellt.

Þannig vanti að stóran hluta fimm árganga og algerlega 2010 árganginn til viðbótar. Viðbúið sé að varpstofninn minnki mjög hratt næstu sex ár nema stórfelldur innflutningur eigi sér stað.

Þá segir náttúrustofan, að samkvæmt talningum Arnþórs Garðarssonar á bjargfuglum Vestmannaeyja af loftmyndum 1985 og aftur 2006, hafi langvíu í Eyjum fækkað um 40% eða úr 57.000 varppörum í 34.000 varppör. Langvía sé sílaæta og því undir sama hatt sett og lundinn. Lagt er til að eggjatekja verði bönnuð í ár og að í framhaldinu verði lögð drög að mælingu varpárangurs og ákvörðun áframhaldandi eggjatöku ráðist af niðurstöðum þeirra mælinga.

Vefur Náttúrustofu Suðurlands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert