„Ákveðin viðurkenning“

mbl.is/Eggert

„Ég er mjög ánægð með þessa niðurstöðu. Þetta er ákveðin viðurkenning á því sem við höfum verið að segja árum saman,“ segir Sigrún Pálína Ingvarsdóttir í samtali við mbl.is, spurð út í niðurstöðu rannsóknarskýrslu umstarfshætti og viðbrögð kirkjunnar vegna ásakana á hendur Ólafi Skúlasyni, biskupi, um kynferðisbrot.

Sigrún Pálína vísar þá til þess sem hún, Dagbjört Guðmundsdóttir og Stefanía Þorgrímsdóttir hafa haldið fram árum saman varðandi Ólaf biskup.

Hún vonast til að með skýrslunni verði hægt að setja punkt fyrir aftan málið. „Ég vona að kirkjuþing taki á þessu af ábyrgð og taki við ábyrgðinni á þessu máli,“ segir Sigrún Pálína. Það sé búið að taka yfir 32 ár að komast að niðurstöðu.

Kirkjuþing mun koma saman á þriðjudag til að fara yfir skýrsluna og þær ábendingar sem þar koma fram.

Hafi ekki komið heiðarlega fram

Sigrún Pálína segir að það sé miður að ekki sé tekin ákveðnari afstaða varðandi hlutdeild Hjálmars Jónssonar dómkirkjuprests og Karls Sigurbjörnsson biskups. Sigrún Pálína vísar til viðbragða þeirra á sáttafundi sem var haldinn í Hallgrímskirkju dagana 2. og 3. mars árið 1996.

„Ég veit hvað gerðist frá mínum bæjardyrum séð. Og mér finnst þeir ekki hafa komið heiðarlega fram. Hvorki þá eða núna í dag,“ segir Sigrún Pálína um þá Hjálmar og Karl.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir að sérstaklega hafi verið kappkostað að reyna að upplýsa um þau atriði sem Sigrún Pálína hafi helst talið fela í sér ámælisverða framkomu í hennar garð af hálfu þeirra Karls og Hjálmars.

„Fyrir liggi að þeir hafi með öllu hafnað staðhæfingum Sigrúnar Pálínu um þessi atvik. Eftir að hafa yfirfarið gögn málsins og framburð fyrir rannsóknarnefndinni sé ljóst að orð standi á móti orði um hvernig háttað hafi verið framvindu atburðarásarinnar síðla sunnudags 3. mars 1996,“ segir í skýrslunni.

Atburðarásin skjalfest

Aðspurð þá segist hún vera ánægðust með það að þessi atburðarás skuli nú vera skjalfest. „Að það sé skjalfest sem gerðist innan kirkjunnar á þessum tíma. Bara að það skuli vera komin yfir 300 síðna skýrsla er ákveðinn sigur,“ segir hún.

Sigrún Pálína tekur fram að hún eigi eftir að fara betur yfir skýrsluna en hún kynnti sér helstu niðurstöður hennar í kjölfar birtingarinnar í dag. „Ég ætla að nota næstu daga til að fara yfir skýrsluna og ég vonast til að þeir sem lesi um Hallgrímskirkjufundinn séu ekki í vafa um sannleikann.“

Sigrún Pálína segir að þrátt fyrir að hún hafi orðið að yfirgefa landið árið 1996 þá hafi hún aldrei gefist upp. Ástæðan sé sú að hún gat ekki sætt sig við það að það væri ekki hægt að koma fram með svona mál. Mikilvægt sé að konur, börn og menn fái að njóta réttlætis.

Þá vonast Sigrún Pálína til að málið hafi leitt til þess að þeim hafi nú tekist að sýna fram á að það sé hægt að láta réttlætið fram ganga.

Ró komist á málið

„Síðan að það komist ró á og þjóðkirkjan taki af ábyrgð á þessu máli,“ segir hún.

„Ég hef aldrei getað sætt mig við það að skyldi þurfa að segja mig úr þjóðkirkjunni og vona að það komi sá dagur að ég geti sagt mig inn í hana aftur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka