„Hann er í algjörri úlfakreppu aumingja maðurinn“

Í skýrslu rannsóknarnefndar þjóðkirkjunnar er farið yfir framburð Karls Sigurbjörnssonar …
Í skýrslu rannsóknarnefndar þjóðkirkjunnar er farið yfir framburð Karls Sigurbjörnssonar biskups. mbl.is/Eggert

Ólafur Skúlason, biskup, fór fram á það við kirkjuráð í febrúar 1996 að gefin yrði út stuðningsyfirlýsing honum til handa vegna ásakana um að hann hefði gerst sekur um kynferðisbrot, „að því yrði lýst yfir að þetta væri áburður á hendur honum sem hann væri saklaus af, ásakanir sem hann væri saklaus af," líkt og Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands, sem átti sæti í kirkjuráði á þessum tíma, sagði í framburði sínum hjá rannsóknarnefnd þjóðkirkjunnar.

Ólafur átti á þessum tíma sjálfur sæti í kirkjuráði. Í framhaldi funda ráðsins í febrúar og mars og í kjölfar viðtals við Ólaf í Ríkissjónvarpinu, þar sem hann bar af sér framkomnar sakir um kynferðisbrot, gaf kirkjuráð út yfirlýsingu þar sem m.a. sagði: „Kirkjuráð harmar þær ásakanir sem bornar eru fram á hendur biskupi Íslands og eru alvarleg atlaga að æru hans og heiðri."

Í niðurlagi yfirlýsingarinnar sagði ennfremur að kirkjuráð votti „biskupi Íslands og fjölskyldu hans dýpstu samúð og kærleika og treystir honum til að leiða þessi alvarlegu mál til lykta, kirkju og þjóð til heilla og blessunar."

Í kjölfar yfirlýsingar kirkjuráðs ritaði Karl í dagbók sína: „Ég held að hann sé búinn að vera eða öllu heldur – ég er hræddur um að hann nái sér ekki út úr þessu. Hann er í algjörri úlfakreppu aumingja maðurinn."

Bókaði ekki andmæli þrátt fyrir efasemdir 

Í framburði Karls biskups fyrir rannsóknarnefnd þjóðkirkjunnar kom fram að Ólafur hefði flutt „mjög tilfinningaþrungna ræðu yfir þeim sem hafi verið mjög erfitt að sitja undir".

Síðan hefði verið óskað eftir hléi á fundinum þannig að kirkjuráðsmenn, þ.e. aðrir en biskup, gætu ráðið ráðum sínum. Þar hefði verið mikill hljómgrunnur fyrir því að taka undir með biskupi og lýsa yfir fortakslausum stuðningi við hann, auk þess að lýsa yfir sakleysi hans af þessum áburði.

Aðspurður um hvort hann hefði sjálfur verið einn af þeim svaraði Karl því neitandi, en hann hefði þó ekki bókað andmæli við yfirlýsingunni. Hann hefði staðið að henni eins og aðrir kirkjuráðsmenn. Kvaðst hann hafa tekið þátt í því að semja hana sem hefði verið „frekar loðin".

Hann hefði ekki viljað að kirkjuráð færi að kveða upp einhvern dóm í málinu því honum hefði ekki fundist það vera hlutverk þess. Þá kom fram hjá Karli að biskup hefði verið mjög ósáttur við yfirlýsingu ráðsins.

Inntur eftir því hvort líta megi á samþykkt hennar sem mistök af hálfu kirkjuráðs svaraði Karl með þessum orðum: „Jú, það var bara kannski hvorki fugl né fiskur. Ég veit ekki hvað maður á að segja um það. Við vorum undir svona ákveðinni mikilli pressu þar."

Kom aldrei til greina að konurnar kæmu fyrir ráðið

Aðspurður hvort það hefði komið til greina af hálfu kirkjuráðs að gefa konunum þremur, sem báru sakir á Ólaf, kost á að koma fyrir ráðið á þessum tíma svaraði Karl því til að það hefði aldrei verið rætt og hefði aldrei komið til greina.

Inntur eftir því hvort það hefðu verið mistök að gefa þeim ekki kost á að koma fyrir ráðið og segja frá reynslu sinni áður en yfirlýsingin var gefin út svaraði Karl því til að það gæti vel verið, hann vissi það samt ekki.

Málið var „rekið í gegn“

Þetta mál hefði allt einhvern veginn verið þannig að það hefði bara „verið rekið í gegn“. Það hefði ekki verið lögð fram nein lögreglukæra. Þetta hefðu verið ásakanir og hann hefði talið að kirkjuráð hefði ekki upplifað sig í þeirri stöðu að geta rætt þetta mál eða efnisatriði þess. Það hefði bara einhvern veginn ekki hvarflað að neinum.

Aðspurður um hvort afstaða kirkjuráðsmanna, yfirlýsing þeirra og ályktun Prófastafélagsins viku síðar, þar sem fram kom stuðningur prófasta við Ólaf, hefði að einhverju leyti mótast af einhvers konar valdabaráttu ólíkra hópa innan kirkjunnar, svaraði Karl því játandi og kvaðst telja að svo hefði verið.

Konurnar ekki leiksoppar

Lýsti hann því mati sínu að þarna hefðu verið menn sem hefðu verið „mjög ákveðnir í því að þetta væri bara pólitík". Hann hafnaði því hins vegar að líta mætti á konurnar sem einhvers konar leiksoppa í valdabaráttu innan kirkjunnar, hann hefði í öllu falli ekki upplifað þetta þannig. Hann kannaðist við þessa lýsingu og þessi vinkill á málinu hefði valdið ónotum og truflað marga.

Karl lagði fram ljósrit úr dagbók sinni frá árinu 1996 á fundi rannsóknarnefndarinnar, merkt skráð „4. mars", þar sem segir m.a. svo um yfirlýsingu kirkjuráðs: „Ályktun kirkjuráðs olli Ólafi vonbrigðum. ... við hefðum átt að hvetja sig til að sitja áfram og lýsa eindregnum stuðningi við hann. Við sögðumst treysta honum til að leiða þessi mál til lykta. Hvort hann getur setið áfram með þetta á bakinu getur samviska hans ein sagt honum. Ég held að hann sé búinn að vera eða öllu heldur – ég er hræddur um að hann nái sér ekki út úr þessu. Hann er í algjörri úlfakreppu aumingja maðurinn."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert