Mistök að taka að sér sáttahlutverkið

Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson.
Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson. mbl.is/Ómar

Karl Sigurbjörnsson, biskups Íslands, segir að með því að taka að sér að leita sátta milli Ólafs Skúlasonar, fyrrum biskups og Sigrúnar Pálínu Ingvarsdóttur hafi hann gert mistök. Þetta kom fram í máli biskups í Kastljósi í kvöld. 

Líkt og fram kemur í rannsóknarskýrslunni þá hafði hann daginn áður skrifað undir stuðningsyfirlýsingu með Ólafi sem fulltrúi í kirkjuráði.

Rannsóknarnefndin telur að þeir kirkjuráðsmenn sem stóðu að stuðningsyfirlýsingu við Ólaf 1. mars 1996 hafi gert alvarleg mistök með því að gefa hana út opinberlega á sama tíma og einstakir þættir málsins voru til meðferðar á viðeigandi vettvangi hjá siðanefnd og stjórn Prestafélagsins, ekki síst þar sem Ólafur var forseti ráðsins.

Karl sagði jafnframt að hann hefði átt að taka öðru vísi á málunum þegar Guðrún Ebba Ólafsdóttir leitaði til kirkjunnar vegna kynferðisbrota föður síns.  Í skýrslunni kemur fram að Guðrún Ebba hafi þann 27. mars 2009 óskað eftir fundi með ráðinu til að segja sögu sína en fram hefur komið að faðir hennar beitti hana kynferðisofbeldi þegar hún var barn og unglingur. Þá hafi erindi hennar aldrei verið svarað formlega.

Karl sagði í Kastljósi í kvöld Guðrún Ebba hafi óskað eftir því á fundi með honum að Sigrún Pálína kæmi á fund kirkjuráðs. Eins að hún fengi sjálf að koma fyrir kirkjuráð og lýsa því hvernig mann faðir hennar hafði að bera. Karl segist hafa hvatt hana til að skrifa formlegt bréf sem hún gerði.

Segist Karl ekki hafa gætt að því að þegar bréfið barst til hans frá Guðrúnu Ebbu hafi það ekki verið stimplað. Hann hefði ekki hugsað um það enda bréf yfirleitt stimpluð sem komi á borð biskups.  Skjalavörður biskupsstofu hafi síðar sagt að hún hafi sagt honum að bréfið væri óstimplað.

Einhverra hluta hafi þessi misskilningur komið upp á milli hans og starfsmanna þannig að skráning bréfsins misfórst.

Beiðni Guðrúnar Ebbu um fund hafi því ekki verið tekin fyrir strax og dráttur varð á fundinum. Karl segist hafa beðið Guðrúnu Ebbu síðar afsökunar á þessu. 

Biskup Íslands segist skilja það að hann sé gagnrýndur en ekkert komi fram í rannsóknarskýrslunni sem segi að hann hafi brotið af sér í starfi og eigi að segja af sér embætti. Hins vegar komi fram í skýrslunni að hann hafi gert mistök ásamt fleirum.

Hér á eftir birtist hluti greinar sem birtist um málið í Morgunblaðið sl. laugardag.

 Upphaf biskupsmálsins í hnotskurn

1988 átti Sigrún Pálína fund með þáverandi biskupi yfir Íslandi, Sigurbirni Einarssyni. Hún sagði honum frá kynferðislegu ofbeldi sem hún sagði Ólaf hafa beitt sig árið 1978. Sigurbjörn kom á fundi Sigrúnar og Ólafs en sá fundur leiddi ekki til sátta. Sigrún segist hafa vonað að Sigurbjörn myndi aðhafast í málinu en „Ólafur varð biskup og það hafði gríðarleg áhrif á mig“.

1994 sagði Sigrún sr. Pálma Matthíassyni í Bústaðakirkju frá samskiptum sínum við Ólaf. Bað hún Pálma að koma málinu áfram, en þau greinir á um hvort og með hvaða hætti hann hafi brugðist við þeirri bón hennar.

1995 fór Sigrún á fund Vigfúsar Þórs Árnasonar, sóknarprests í Grafarvogskirkju. Hann sagðist ekkert geta gert og olli Sigrúnu vonbrigðum er hann, ári síðar, lýsti í fjölmiðlum „fullu trausti“ á biskup Íslands, er Langholtskirkjudeilan stóð sem hæst.

1996 komu ásakanir um kynferðisbrot Ólafs Skúlasonar fyrst opinberlega fram. Snemma árs sendi Sigrún Pálína sitt fyrsta erindi til siðanefndar Prestafélagsins þar sem hún lýsti málinu og kvartaði undan viðbrögðum sr. Pálma og sr. Vigfúsar.

15. febrúar 1996 lauk siðanefnd málinu formlega og sagði sættir hafa náðst milli sr. Vigfúsar og Sigrúnar, en vísaði „öðrum afurðum“ málsins til stjórnar Prestafélagsins. Málið átti með ýmsum hætti aftur eftir að koma inn á borð siðanefndar.

22. febrúar sendi Ólafur formlegt erindi til ríkissaksóknara þar sem hann óskaði eftir opinberri rannsókn á meintum ærumeiðingum í hans garð af hálfu Sigrúnar Pálínu og tveggja annarra kvenna sem þá höfðu stigið fram.

1. mars gaf kirkjuráð, sem sr. Karl Sigurbjörnsson, síðar biskup, átti sæti í, út yfirlýsingu þar sem ásakanir á hendur Ólafi voru harmaðar.

2. og 3. mars sömdu Sigrún, sr. Karl og sr. Hjálmar Jónsson yfirlýsingu til að lægja öldurnar. Sigrún segir yfirlýsingunni hafa verið breytt og setning, þar sem hún sagðist standa við orð sín, verið fjarlægð.

2008 lést Ólafur Skúlason og dóttir hans, Guðrún Ebba, leitaði til kirkjunnar og sagði frá ofbeldi sem hún varð fyrir af hálfu föður síns. Lítið hafði þá verið rætt um biskupsmálið í mörg ár. Í kjölfarið var skipuð rannsóknarnefnd til að fara yfir viðbrögð þjóðkirkjunnar frá upphafi til enda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert