„Ég fer í skaðabótamál,“ sagði Anna Kristín Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur. Ríkislögmaður hefur hafnað kröfu hennar um skaðabætur. Kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði að ráða hefði átt Önnu Kristínu í starf skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu en karlkyns umsækjandi var ráðinn.
Anna Kristín sagði að sér hafi verið boðnar miskabætur, sem að hámarki geta orðið 500.000 krónur, en engar skaðabætur. „Það kom ekki til greina að sættast á það. Jafnréttislögin gera beinlínis ráð fyrir skaðabótum ef þau eru brotin,“ sagði Anna.
Hún kvaðst hafa lagt fram sáttatilboð upp á fimm milljóna króna greiðslu fyrir skaða- og miskabætur. Hún vísað í dóm í máli svipaðs eðlis sem féll á Akureyri fyrir nokkrum árum og framreiknað upphæðina.
„Ef forsætisráðherra landsins hafnar niðurstöðu nefndar sem er skipuð af hæstarétti - og niðurstöður hennar bindandi samkvæmt lögum - þá á að leggja þessa nefnd [kærunefnd jafnréttismála] niður. Þá hefur hún ekkert hlutverk og ekkert gildi,“ sagði Anna Kristín.
Fram hefur komið að Anna Kristín hafi verið í 5. sæti umsækjenda þeirra fimm sem kallaðir voru í síðara viðtal vegna starfsins.
Einungis var þó haft samband við meðmælendur Önnu Kristínar, þó ekki alla sem hún benti á, og meðmælendur þess sem var ráðinn. Meðmælandi hans var einnig beðinn að gefa álit sitt á Önnu Kristínu! Kærunefndin taldi því að mjög hafi hallað á Önnu Kristínu í samanburðinum.
Anna Kristín telur þetta staðfesta að valið hafi alltaf staðið á milli hennar og þess sem var ráðinn. „Það er því óskiljanlegt hvers vegna því er alltaf haldið fram að ég hafi verið 5. besti kosturinn,“ sagði Anna Kristín.