Ráðast ætti í stofnun millidómstigs í einkamálum og sakamálum hér á landi, að mati vinnuhóps sem innanríkisráðherra skipaði í desember sl. Hópurinn átti að taka til skoðunar þörfina á millidómstigi. Þó voru skiptar skoðanir á því innan hópsins hvort millidómstig ætti í fyrstu að taka aðeins til sakamála eða bæði sakamála og einkamála.
Vinnuhópurinn var skipaður Sigurði Tómasi Magnússyni, prófessor, Ásu Ólafsdóttur, lektor og hæstaréttarlögmanni, Benedikt Bogasyni, dómstjóra og dósent og Símoni Sigvaldasyni, héraðsdómara og formanni dómstólaráðs. Skýrslan er afar ítarleg og telur 73 blaðsíður. Gerður er samanburður á nokkrum þáttum í dómskerfum Íslands, Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar auk þess farið er yfir réttinn til milliliðalausrar sönnunarfærslu.
Hópurinn skiptist þó í tvö horn þegar kom að endanlegri niðurstöðu.
Benedikt og Símon telja að sá munur sem er á árlegum rekstrarkostnaði millidómstigs í sakamálum og millidómstigs í einkamálum og sakamálum geri það að verkum, ásamt öðru, að rétt sé að hefjast þegar handa við stofnun millidómstigs í sakamálum en láta millidómstig í einkamálum bíða betri tíma.
Þegar litið er til kostnaðar kemur í ljós að beinn rekstrarkostnaður millidómstigs í sakamálum yrði 190 m.kr. á ári, en vegna sparnaðar sem stofnun þess hefði í för með sér á öðrum dómstigum yrðu heildaráhrif af stofnun slíks millidómstigs þau að rekstrarkostnaður dómskerfisins í heild myndi hækka um 125 m.kr. eða um u.þ.b. 8% af ætluðum kostnaði við dómskerfið á árinu 2011. Stofnkostnaður slíks millidómstigs yrði um 101 m.kr.
Þau Sigurður Tómas og Ása telja hins vegar að millidómstig í sakamálum og einkamálum hafi svo ótvíræða kosti fram yfir millidómstig í sakamálum að mæla verði eindregið með að slíkt almennt millidómstig verði lögfest hér á landi.
Vinnuhópurinn metur beinan rekstrarkostnað millidómstigs í einkamálum og sakamálum hins vegar 385 m.kr. á ári en telur að vegna sparnaðar af stofnun slíks millidómstigs, einkum í Hæstarétti, yrðu heildaráhrifin þau að rekstrarkostnaður dómskerfisins myndi hækka um 240 m.kr. eða um u.þ.b. 15% af ætluðum kostnaði við dómskerfið á árinu 2011. Stofnkostnaður slíks millidómstigs yrði um 164 m.kr.
Niðurstaða vinnuhópsins er þó sú að full rök séu séu til að taka undir með áskorun Ákærendafélags Íslands, Dómarafélag Íslands, Lögfræðingafélag Íslands og Lögmannafélag Íslands um að ráðast beri í stofnun millidómstigs í einkamálum og sakamálum hér á landi.