Konan sem talin er hafa fætt barn og borið það út er 22 ára gömul og frá Litháen en búsett hér, að sögn fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Hún var þerna á Hótel Frón við Laugaveg, að sögn fréttastofunnar.
Unnusti konunnar er jafnaldri hennar og einnig frá Litháen. Fréttastofan sagði að hann muni hafa farið með konuna til læknis.
Fréttastofa RÚV greindi frá því að maðurinn hafi komið með unnustu sína á bráðamóttöku Landspítalans um klukkan 16.00 í gær.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér svohljóðandi tilkynningu rétt fyrir miðnættið í gær:
„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú voveifilegt lát barns. Lík þess fannst í ruslagámi við hótel í Reykjavík þar sem kona, sem talin er hafa fætt það, vinnur.
Í morgun var komið með konu á bráðamóttöku Landsspítalans vegna blæðinga og kviðverkja. Þrátt fyrir að konan kannaðist ekki við að hafa verið ófrísk, töldu læknar að hún hefði misst fóstur og verkir og blæðing stöfuðu af því. Við nánari skoðun voru læknar þess fullvissir að hún hefði fætt barn þá skömmu áður eða á síðasta sólahring. Lögreglu var þá þegar gert viðvart og hófst strax rannsókn og eftirgrennslan eftir barni. Skömmu síðar fann lögregla nýfætt barn í ruslagámi við hótelið þar sem konan vinnur, en vitað var að hún hefði verið þar í morgun. Barnið var látið þegar það fannst en talið er að það hafi fæðst lifandi.
Konan er í gæslu lögreglu á sjúkrahúsi. Unnusti konunar er í haldi lögreglu. Fjöldi lögreglumanna hefur komið að málinu í dag og standa yfirheyrslur yfir.“