„Verið er að vinna í því að hafa samband við fjölskyldu konunnar úti í Litháen,“ segir Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins, um framgang í máli konunnar sem grunuð er um að hafa skilið nýfætt barn sitt eftir í ruslagámi við Hótel Frón.
Konan verður á sjúkrahúsi næstu daga en eftir það sætir hún einangrun í gæsluvarðhaldi. Krufningu á líki barnsins lauk í gærdag. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins benda niðurstöður krufningar eindregið til þess að barnið hafi verið lifandi þegar það fæddist.
Rannsókn málsins beinist meðal annars að því, að komast að því hvort konan hafi vitað að hún var þunguð, en ljóst þykir að hún hafi leynt því fyrir öllum þeim sem umgengust hana.