Konan sem grunuð er um að hafa skilið nýfætt barn sitt eftir í ruslagámi við Hótel Frón er enn á sjúkrahúsi.
Eftir sjúkrahúsvistun verður konan færð í gæsluvarðhald þar sem hún verður í einangrun. Búist er við því að þá muni yfirheyrslur yfir henni hefjast ásamt því að hún undirgengst geðrannsókn. Rannsóknarhagsmunir eru ein megin ástæða einangrunarinnar yfir konunni.
Samkvæmt heimildum mbl.is benda niðurstöður krufningar eindregið til þess að barnið hafi fæðst lifandi. Rannsókn málsins beinist meðal annars að því, að komast að því hvort konan hafi vitað að hún var þunguð, en ljóst þykir að hún hafi leynt því fyrir öllum þeim er umgengust hana.