Fréttaskýring: Magnið var yfirþyrmandi

Svartan reyk lagði af eldinum í dekkjunum. Hagstæð vindátt olli …
Svartan reyk lagði af eldinum í dekkjunum. Hagstæð vindátt olli því að reykinn lagði út á haf frekar en yfir íbúðabyggð eins og gerðist 2004. mbl.is/Júlíus

Dekkjabruninn á athafnasvæði endurvinnslufyrirtækisins Hringrásar við Klettagarða í fyrrinótt hefur vakið efasemdir um hvort heppilegt sé að hafa starfsemi sem þessa svo nærri íbúðabyggð. Tugir manna þurftu að rýma heimili sín þegar stórbruni varð hjá fyrirtækinu árið 2004 og reyk lagði yfir byggð.

Ekki kom til þess nú þar sem vindátt var hagstæð en bent hefur verið á að öldrunarheimili Hrafnistu er í næsta nágrenni og væri það enginn hægðarleikur að rýma það. Er nú talað um nauðsyn þess að endurskoða staðsetningu og hugsanlega það magn efnis sem fyrirtækinu er heimilt að hafa samkvæmt starfsleyfi.

Slökkviliði barst tilkynning um eldinn á þriðja tímanum í fyrrinótt og var allt tiltækt lið kallað út til að ráða niðurlögum hans. Um 60 manns glímdu við eldinn þegar mest var. Voru áætlanir þegar gerðar um hugsanlega rýmingu íbúða í nágreninu ef aðstæður skyldu breytast. Var það ekki fyrr en á tíunda tímanum í gærmorgun sem þeim tókst endanlega að slökkva í síðustu glæðunum. Sást til mannaferða nálægt þeim stað þar sem eldurinn kom upp og rannsakar lögregla nú hvort kveikt hafi verið í.

Farið í eftirlit í síðustu viku

„Maður þakkar fyrir að vindáttin var okkur hagstæð því annars hefði verkefnið verið allt annað,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins. Magnið af efni sem logaði í þegar menn mættu á staðinn hafi verið yfirþyrmandi. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og slökkviliðið hafa eftirlit með starfsemi fyrirtækisins og fór það fyrrnefnda í eftirlitsferð í fyrirtækið í síðustu viku eftir að ábending barst um að hugsanlega væri magn gúmmís yfir mörkun. Reyndist það vera innan marka starfsleyfis sem eru þúsund rúmmetrar af gúmmíi.

Jón Viðar segir eldsvoðann nú vekja spurningar um hvort endurskoða þurfi það magn sem leyfilegt sé að hafa á svæðinu og staðsetningu fyrirtækisins yfirleitt.

Skoða málið með yfirvöldum

Starfsemi Hringrásar átti að komast í eðlilegt horf síðdegis í gær en Einar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir það fúst til að skoða framtíð sína í Klettagörðum með þar til bærum yfirvöldum. Hann efist þó um að slík skoðun leiði í ljós hentugri staðsetningu fyrir fyrirtækið. „Við erum að fara í einu og öllu eftir ákvæðum starfsleyfisins. Við erum að standa okkur og gott betur. Við erum búnir að slípa þennan rekstur það vel til að ég held að það sé mikill ávinningur fyrir borgarbúa að hafa svona endurvinnslufyrirtæki í borginni.“

Öryggismyndavélar eru á svæðinu auk þess sem vaktmaður fylgist með því til klukkan tíu á kvöldin að sögn Einars. Eftir það vaktar Securitas svæðið. Ekki hafi verið talin þörf á sérstökum vaktmanni alla nóttina. Ekki sé víst að það hefði breytt neinu þegar um sé að ræða misindismenn sem ætli sér að kveikja í, segir Einar.

Hert á kröfum eftir fyrri bruna

Í eldsvoðanum sem kom upp hjá Hringrás þann 23. nóvember árið 2004 varð að rýma íbúðir í nágrenninu. Alls þurftu 83 manns að flýja heimili sín og gistu meðal annars í Langholtsskóla. Þá er talið að eldur hafi kviknað út frá rafmagnslyftara sem verið var að hlaða í skúr á svæðinu. Eftir eldsvoðann voru gerðar strangari kröfur um eld- og mengunarvarnir. Hafa nú til dæmis verið steyptar þrær sem halda gúmmíi og málmi aðskildum og auðveldaði það slökkvistarf nú. Þá voru sett ákvæði um hámarksmagn gúmmís í starfsleyfi fyrirtækisins.

Á ekki heima nálægt byggð

Hrafnista hefur lengi viljað Hringrás burt „Svona starfsemi á ekkert heima nálægt byggð, hvort sem það er byggð aldraðra eða almenn. Við munum endurvekja þetta mál núna, það er alveg ljóst,“ segir Pétur Magnússon, forstjóri öldrunarheimila Hrafnistu, um starfsemi Hringrásar.

Forsvarsmenn Hrafnistu hafi frá brunanum 2004 verið í samskiptum við stjórnendur Hringrásar og slökkviliðsstjóra. Þeir hafi lýst yfir miklum áhyggjum sínum af staðsetningu fyrirtækisins en hafi verið fullvissaðir um að ráðstafanir hefðu verið gerðar til að slíkur stórbruni ætti sér ekki stað aftur.

Pétur bendir á að Hrafnista í Reykjavík sé stærsta öldunarheimili landsins þar sem 240 manns búi. Þar séu meðal annars tvær deildir fyrir heilabilaða. Flókið mál sé að rýma heimilið í aðstæðum sem þessum. kjartan@mbl.is

Fundinn annar staður

Borgarráð mun fjalla um brunann hjá Hringrás með tilliti til öryggismála og almannaheilla á fundi sínum 19. júlí að því er kemur fram í tilkynningu.

Borgaryfirvöld líti hann alvarlegum augum vegna þeirrar almannahættu sem eldsvoði á þessum stað getur valdið.

Hjálmar Sveinsson, formaður stjórnar Faxaflóahafna, segir starfsemi Hringrásar nauðsynlega en flestir séu sammála í kjölfar brunans um finna henni annan stað. Hún sé of nálægt íbúðabyggð. Þá hafi stórt skemmtiferðaskip siglt inn í höfnina í gær og hefði reykurinn getað stöðvað för þess hefði ekki náðst að slökkva eldinn áður. kjartan@mbl.is

Bruninn árið 2004
» Reykurinn sem myndaðist er stórhættulegur og getur verið banvænn. Er hann sérlega hættulegur fólki með viðkvæm öndunarfæri.
» Í brunanum 2004 þurftu 83 að flýja heimili sín á Kleppsvegi þar sem reykinn lagði yfir.
» Eftir eldsvoðann voru öryggis- og umhverfiskröfur til Hringrásar hertar og sett inn ákvæði um leyfilegt magn gúmmís.
» Árið 2007 kviknaði í dekkjum og rusli í porti við húsnæði Hringrásar á Akureyri.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert