Hagstæð vindátt forðaði því að rýma þyrfti íbúðir í Laugarneshverfi í annað skiptið á sjö árum þegar eldur blossaði upp í endurvinnslustöð Hringrásar í Klettagörðum aðfaranótt þriðjudags.
Árið 2004 lagði baneitraðan reyk frá eldsvoða á sama stað yfir íbúðahverfi í nágrenni fyrirtækisins og þurftu um sex hundruð manns að flýja heimili sín. Í næsta nágrenni við fyrirtækið búa hundruð eldri borgara á hjúkrunar- og öldrunarheimilum. Þó rýmingaráætlanir séu til fyrir heimilin er það meiriháttar mál að rýma þau ef frekari óhöpp verða á svæðinu.
Hrafnista á Brúnavegi er stærsta öldrunarheimili landsins með um 240 heimilismenn. Þar eru meðal annars tvær deildir fyrir heilabilaða. Á hjúkrunarheimilinu Skjóli eru svo 94 einstaklingar og er meðalaldur þeirra um 85 ár. Margir þeirra eru rúmfastir og því ekki auðvelt um vik að flytja þá í neyðarástandi.
Á báðum stöðum eru í gildi rýmingaráætlanir til að bregðast við þegar mengungarslys sem þessi eiga sér stað. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri Skjóls, segir að öryggisáætlanir þar hafi verið uppfærðar fyrir tveimur til þremur árum en þessi mál verði skoðuð enn frekar eftir eldsvoðann á aðfaranótt þriðjudags.
Á hvorugu heimilinu voru þó til viðmið um hversu langan tíma rýming tæki. „Það fer eftir því á hvaða tíma dags þetta gerist hve fljótt er hægt að rýma. Það eru færri starfsmenn á nóttunni en þá væri kallað út fólk,“ segir Vilhjálmur.
Í vinnu við aðalskipulag Reykjavíkurborgar á síðasta kjörtímabili var rætt um að aðkallandi væri að finna fyrirtækinu, auk fleiri fyrirtækja í grófiðnaði, annan stað í borginni og var þar litið til nýrrar hafnar á Álfsnesi við Kollafjörð. Þar eru meðal annars nefnd fyrirtæki eins og Björgun við Bryggjuhverfi auk steypustöðva. Ekkert virðist þó í spilunum um að uppbygging iðnaðar sé á næsta leiti þar.
Þegar grípa þarf til rýmingar eins og gerðist árið 2004 geti Neyðarlínan rammað inn svæði á korti og hringja þá allir símar á viðkomandi svæði. Þá gegni fjölmiðlar stóru hlutverki í rýmingaráætlunum. Mikilvægt sé að fólk kveiki strax á þeim til að vita hvernig eigi að bregðast við.
Slökkviliðið hefur einnig þann möguleika að keyra um götur á bíl með gjallarhorni til að kalla á fólk eða ganga í hús og banka. Þá beri íbúar sjálfir sína ábyrgð. „Við treystum á eðlileg viðbrögð almennings líka. Það skiptir gríðarlegu máli í fjölbýli að fólk sé meðvitað um að vekja nágranna og það hugsi um náungann,“ segir Jón Viðar.