„Maður myndi aldrei vilja upplifa þetta aftur, það var gjörsamlega vonlaust að fá upplýsingar um hver næstu skref yrðu. Þarna er um alvarlegt gap í starfseminni að ræða.“
Þetta segir Hrafn Gunnlaugsson, kvikmyndaleikstjóri og farþegi um borð í flugvél á vegum Iceland Express sem fara átti frá Charles De Gaulle-flugvellinum í París til Íslands á föstudaginn, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Hrafn segir aðstæðurnar sem boðið var upp á hafa verið hræðilegar fyrir barnafólk. „Þarna voru grænlensk hjón með nýfætt barn,“ segir Hrafn og bætir við að hann hafi kennt verulega í brjósti um þau. Að sögn Hrafns var öllu fólkinu „troðið“ inn á hótel rétt undir miðnætti á föstudag, um sextíu manns. „Fólki var troðið í fimm til sex manna hópum inn á tveggja til þriggja manna herbergi,“ segir Hrafn sem sjálfur telur sig hafa verið heppinn en hann fékk herbergi fyrir sig og sex ára son sinn þar sem hann mætti snemma.