Kirkjan verður að gera upp sín eigin mál

Skýrsla rannsóknarnefndar kirkjunnar.
Skýrsla rannsóknarnefndar kirkjunnar. mbl.is / Eggert

Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, tekur undir orð Sigrúnar Pálínu Ingvarsdóttur um  að engar peningagreiðslur geti bætt fyrir þá áþján sem hún og aðrir máttu þola af hans og kirkjunnar hálfu.

Með greiðslunum er kirkjan aðeins að viðurkenna og gangast við illri framkomu gegn þeim konum sem fyrir löngu komu fram með ásakanir vegna ofbeldis af hálfu fyrrum biskupi, skrifar Björn Valur á vef sínum.

„Það reiknar heldur enginn með því að peningar frekar en nokkuð annað fái bætt slíkan skaða. Það er þó mikilvægt að gangast við ábyrgð sinni eins og kirkjan virðist ætla að gera með því að greiða fórnarlömbunum einhverjar bætur.

En hvernig ætlað kirkjan að gangast við ábyrgð sinni inna á við? Skiptir það ekki líka máli? Enn eru við völd sumir þeir kirkjunnar menn sem reyndu að þagga málið niður á sínum tíma og fá konurnar sem urðu fyrir ofbeldinu til að þegja yfir því. Er það ásættanlegt? Ég vona að kirkjan muni ekki reyna að borga sig frá því líka, heldur axli ábyrgð á axarsköftum sínum með viðeigandi hætti. Kirkjan er of mikilvæg í íslensku samfélagi til að hún geti komist undan því.

Það er einnig rétt í þessu sambandi að benda á að tekjur kirkjunnar koma að stærstum hluta af fjárlögum ríkisins og skatttekjum ríkissjóðs. Það getur varla talist ásættanlegt af hálfu skattgreiðenda að kirkjan greiði skaðabætur vegna framgöngu sinnar í máli sem hér um ræðir án þess að gera jafnframt upp sín eigin mál," skrifar þingmaðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka