Vill endurskoða starfsleyfi Hringrásar

Frá eldsvoðanum við Hringrás í síðustu viku.
Frá eldsvoðanum við Hringrás í síðustu viku. mbl.is/Júlíus

Borgarráð frestaði í dag að afgreiða tillögu frá Þorleifi Gunnlaugssyni, fulltrúa VG, um að skorað verði á Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur að endurskoða starfsleyfi Hringrásar ehf. 

Eldur kom upp í dekkjastæðu á athafnasvæði Hringrásar í síðustu viku og er það í annað skipti frá árinu 2004 sem slíkt gerist. 

Þorleifur segir í greinargerð, að eldsvoðarnir í Hringrás þann 12. júlí s.l. og 22. nóvember 2004 hafi stefnt fjölda íbúa á svæðinu í hættu. Þrátt fyrir ráðstafanir, sem gerðar voru eftir fyrri brunann, hafi ekki tekist að koma í veg fyrir að heilsuógnandi aðstæður endurtæki sig 12. júlí s.l. Því sé ljóst að íbúar á svæðinu geti átt von á slysi af völdum gúmmíbruna sem er óviðunandi, ekki síst þar sem margir þeirra íbúa séu aldraðir og lasburða. 

Þorleifur bendir í greinargerðinni á grein í gildandi starfsleyfi Hringrásar  en þar segir: „Skylt er að endurskoða starfsleyfið ef mengun af völdum endurvinnslustarfsemi er meiri en búast mátti við þegar starfsleyfið var gefið út“. Segir Þorleifur, að þetta hljóti að gilda um eldsvoðann í Hringrás þann 12. júlí s.l.
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert