Í yfirlýsingu frá sjö konum sem tilkynntu um meint kynferðisbrot Gunnars Þorsteinssonar í Krossinum kemur fram að í öllum tilvikum hafi brotin verið fyrnd og þess vegna hafi þeim verið vísað frá.
„Yfirlýsing frá konunum sjö sem tilkynntu kynferðisbrot Gunnars Þorsteinssonar til lögreglunnar í Reykjavík:
Vegna fréttaflutnings síðustu daga um niðurstöðu saksóknara á höfuðborgarsvæðinu í máli Gunnars Þorsteinssonar, kenndur við Krossinn, sjáum við okkur tilneyddar til að varpa ljósi raunverulegu ástæðu þess að málinu var vísað frá.
Í öllum sjö tilfellum töldust málin fyrnd samkvæmt lagaramma kynferðisafbrota. Fyrningatími brotanna reyndist að lágmarki 5 ár en að hámarki 15 ár. Ekkert brotanna féll inn í þennan tímaramma.
Niðurstaða um frávísun máls vegna fyrningar sannar ekki sakleysi þess sem á í hlut. Frávísun sem byggð er á tímaramma eingöngu er engin niðurstaða í sjálfu sér. Eina niðurstaðan hlýtur að vera sú að lög sem vernda gerendur kynferðisafbrota í ljósi tímans hljóta að vera gölluð.
Við erum tilbúnar með erindi til fagráðs um kynferðisafbrot sem sett var á stofn af Innanríkisráðherra fyrr á þessu ári. Erindið mun berast fagráðinu í þessari viku.
Við stöndum við vitnisburði okkar, allar sem ein, enda tölum við sannleikann. Því til staðfestingar höfum við fjölmörg vitni. Sannleikurinn í þessu máli hefur verið beiskur og fylgt okkur sem svartur skuggi í tugi ára. Hann breytist ekki eða hverfur. Því er gott að tala hann og finna um leið að hann veitir frelsi og lausn.
Við fögnum þeim meðbyr sem við höfum fundið á síðastliðnum mánuðum og þökkum þann stuðning sem okkur hefur verið sýndur," segir í tilkynningu frá konunum sjö.