Egill Jónasson Stardal, cand. mag. og framhaldsskólakennari, lést á Landspítalanum í Fossvogi hinn 23. júlí síðastliðinn, 84 ára að aldri. Hann var fæddur í Stardal á Kjalarnesi 14. september 1926.
Eftir gagnfræðapróf lá leið Egils í Menntaskólann í Reykjavík og lauk hann stúdentsprófi þaðan árið 1950.
Þá lagði hann stund á nám í sagnfræði, ensku og enskum bókmenntum við Edinborgar- og Kaupmannahafnarháskóla og lauk síðar cand. mag. prófi í sagnfræði og ensku frá Háskóla Íslands árið 1957. Þá lauk hann einnig námi í kennslufræði. Egill kenndi við Gagnfræðaskóla Austurbæjar og Málaskólann Mími en lengst af sínum starfsferli kenndi hann við Verzlunarskóla Íslands. Hann gegndi jafnframt mörgum öðrum störfum um ævina; var m.a. um tíma blaðamaður hjá Morgunblaðinu, vann við vegamælingar, vegagerð og leiðsögn í laxveiðiám. Einnig vann hann hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur um tíma og hafði alla tíð síðan mikinn áhuga á trjám og skógrækt. Egill fékkst einnig við ritstörf og eftir hann liggja fjölmargar bækur, t.d. Jón Loftsson, samtíð hans og synir frá 1967, Íslandssaga fyrir framhaldsskóla frá 1970, Forsetinn Jón Sigurðsson og upphaf sjálfstæðisbaráttunnar frá 1981 og Árbók Ferðafélags Íslands frá 1985. Hann fékkst einnig við þýðingar og skrifaði fjölda greina.
Egill kvæntist Ernu (Eddu) Ingólfsdóttur 10. október 1954. Hún lést 8. maí árið 2001. Börn þeirra eru Inga Fanney, Jónas og Kristrún Þórdís. Sonur þeirra, Egill Örn, lést af slysförum árið 1971.
Útför Egils verður gerð frá Lágafellskirkju í Mosfellsbæ 2. ágúst og hefst athöfnin kl. 13.00.