Vegna mikillar eftirspurnar og sölu á lambakjöti að undanförnu hafa sláturleyfishafar, í samvinnu við sauðfjárbændur, ákveðið að flýta slátrun um tvær vikur. Því má gera ráð fyrir því að ferskt lambakjöt verði komið í verslanir upp úr miðjum ágúst.
Sláturhúsin munu bjóða upp á álagsgreiðslur til þeirra bænda sem ákveða að senda lömb sín snemma til slátrunar og markaðsráð kindakjöts mun greiða bændum álagsgreiðslur sem nema 2.000 krónum á hvert lamb fyrstu sláturvikuna en greiðslurnar lækka um 500 krónur á viku eftir það.
Sindri Sigurgeirsson formaður Landssamtaka sauðfjárbænda segir í fréttatilkynningu að með þessu sé verið að bregðast við kröfum markaðarins.
„Eftirspurn eftir lambakjöti er mikil og með þessum aðgerðum er verið að svara henni. Lömbin eru léttari þegar svo skammt er liðið á haustið, en með álagsgreiðslum er komið til móts við bændur hvað það varðar. Landssamtök sauðfjárbænda hvetja bændur til að nýta sér þetta tækifæri, ef þeir eiga þess nokkurn kost.“
Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, segir í fréttatilkynningu, að þetta sé jákvætt fyrir neytendur og geti verið góð búbót fyrir bændur. „Margir bændur hafa átt í erfiðleikum vegna rysjótts tíðarfars og það er ánægjulegt ef þeir geti nýtt sér þann möguleika að senda lömb frá sér í sláturhús um miðjan ágúst. Það auðveldar bústjórnina að einhverju leyti og álagsgreiðslur gera þetta að fýsilegum kosti."