Andlát: Steinar Guðmundsson

Steinar Guðmundsson.
Steinar Guðmundsson.

Steinar Guðmundsson lést hinn 1. ágúst sl. á Elliheimilinu Grund í Reykjavík. Steinar fæddist á Laugavegi 19 hinn 15. febrúar 1917 og var því 94 ára þegar hann lést.

Hann var sonur hjónanna Margrétar Árnadóttur, hótelhaldara (1885-1967), Jóns dannebrogsmanns og útvegsbónda í Þorlákshöfn og Guðmundar Kr. Guðmundssonar skipamiðlara (1884-1971), Guðmundar Guðmundssonar, steinsmiðs og ullarmatsmanns, sem kenndur var við Vegamót, er stóðu gegnt fæðingarstað Steinars.

Systkini Steinars voru: Ragnheiður, Guðmundur Pétur og Anna Beck, sem er ein eftirlifandi þeirra systkina.

Steinar kvæntist Jósiönu (Jönu) Magnúsdóttur (l919-2000), frá Bolungavík, 19. apríl 1944. Þau eignuðust 4 börn, Margréti (látin), Önnu, Magnús og Þórdísi (látin). Barnabörn þeirra eru 5 og barnabarnabörn 6.

Steinar gekk í Landakotsskóla og lauk síðar námi í London í verslunarfræðum Woods College í Hull.

Hann starfaði fyrstu árin við Hótel Heklu, sem foreldrar hans áttu. Eftir að Steinar kvæntist Jönu stofnaði hann sælgætisbúðina Gosa á horni Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis. Áfengið var böl Steinars framan af, en um áramótin 1956/1957 fór hann á Bláa bandið til meðferðar og hætti eftir það áfengisdrykkju. Hann helgaði líf sitt áfengismálum, og var alla tíð mikill AA-maður.

Vistheimilið á Víðinesi var stofnað 26. nóvember 1960 og var Steinar forstöðumaður þar en hafði unnið að stofnun þess frá upphafi. Steinar rak skrifstofu á Klapparstíg, en sú starfsemi hét Blái krossinn. Einnig stóð hann að stofnun ÁMÍ, Áfengismálafélags Íslands. Hann fór vestur um haf að kynna sér rekstur meðferðarheimila við áfengissýki og kom eftir það stofnun meðferðarheimilis á Sogni í Ölfusi. Starfaði hann þar sem leiðbeinandi. Steinar skrifað reglulega í blöð um áfengismál og gaf út sex bækur og fjölda bæklinga, s.s. „Snepil“ sem hann gaf út um árabil.

Hann hafði forgöngu um stofnun golfvallar í landi Minna-Mosfells í Mosfellsdal, en þar átti hann sumarhús. Fékk völlurinn nafnið Bakkakotsvöllur, en í gömlum heimildum úr Jarðabók Árna Magnússonar var getið um „Backakot“ sem stóð á þessu landi að talið er.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert