Kveðst ekki muna atburði

Maðurinn fluttur í héraðsdóm Reykjaness í dag
Maðurinn fluttur í héraðsdóm Reykjaness í dag mbl.is/Árni Sæberg

Maðurinn sem ákærður hefur verið fyrir að bana unnustu sinni og barnsmóður í Heiðmörk í maí sl. sagði við þingfestingu málsins  fyrir stundu að hann myndi ekki eftir atburðum sem leiddu til dauða konunnar. Hann sagði jafnframt að það væri engum öðrum til að dreifa en honum.

Því liggur ekki fyrir hrein játning í málinu, sagði Sigríður J. Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari.

Sigríður hafði farið fram á að þinghaldið yrði lokað til að hlífa sakborningi og aðstandendum konunnar sem var myrt. „Það er lítið barn í spilinu og aðstæður með þeim hætti, varðandi vandamenn, að [ég taldi] eðlilegt að hafa þetta lokað,“ sagði hún. Enginn ágreiningur var gerður um þessa kröfu saksóknara og féllst dómarinn á að þinghaldið yrði lokað. Lá sú ákvörðun fyrir áður en málið var þingfest.

Niðurstaða geðrannsóknar er að maðurinn hafi verið ósakhæfur á verknaðarstund. Það er síðan héraðsdóms að ákveða hvort svo hafi verið. Sú niðurstaða liggur ekki fyrir fyrr en dómur verður kveðinn upp. Ítarleg geðrannsókn geðlæknis og álitsgerð annars um ósakhæfið liggur fyrir. Fleiri læknar sem maðurinn hefur sótt meðferð hjá verða kallaðir fyrir dóm við aðalmeðferð málsins.

Manninum var fylgt inn í dómsal bakatil og blaða- og fréttamenn urðu því ekki varir við þegar hann gekk inn í salinn. Að sögn Sigríðar var þetta gert samkvæmt ákvörðun dómstólsins. 

Sigríður sagði í samtölum við blaðamenn eftir að þingfestingu lauk að hún væri þeirrar skoðunar að sakborningar og vitni ættu að geta gengið óáreitt  um dómsali og dómhús án þess að teknar væru af þeim myndir. Þannig væru reglur t.a.m. í Danmörku.

Sigríður sagðist frekar reikna með að sækja málið.  „Það er dálítil mannekla hjá embættinu og þess vegna er ég hérna stödd.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert