Syntu Viðeyjarsund

Sjósundskonurnar þrjár
Sjósundskonurnar þrjár

Síðastliðinn föstudag þreyttu sundkonurnar Birna Hrönn Sigurjónsdóttir, Ragnheiður Valgarðsdóttir og Kristbjörg Rán Valgarðsdóttir formlegt Viðeyjarsund. 

Sundið hófst við bryggjuna í Viðey og lauk við Suðurbugt inni í Reykjavíkurhöfn, alls um 4,5 km.

Synt innan um markríl

Að sögn sundkvennanna var þetta mjög yndislegt sund í heitum sjó, útsýnið skemmtilegt og gaman að hafa makrílinn vaðandi í kringum sig hluta af sundleiðinni. Allar þrjár voru þær vel á sig komnar eftir sundið.
Sjávarhitinn var 13,7°C og vestanstæð gjóla með vindbáru framan af en hægði þegar líða tók á sundið.

Birna lauk sundinu á tímanum 1:37 klst., Ragnheiður á 2:08 og Kristbjörg á 3:02.  Birna fór þetta á skriðsundi klædd bikiníi, en hinar tvær á bringusundi klæddar venjulegum sundbolum.

Ekki var ástæða til að maka sig ullarfeiti eins og gert var í gamla daga.
Alls höfðu áður 3 konur synt þessa leið þannig að við þetta tvöfaldaðist sú tala, segir í tilkynningu.
Sundkonurnar hafa stundað sjósund með Sjósunds- og sjóbaðsfélagi Reykjavíkur í Nauthólsvík síðustu árin, synt í sjónum jafnt sumar sem vetur, í sjó allt niður í -1,5°C.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert