Flugi frestað af öryggisástæðum

Iceland Express.
Iceland Express.

Flugvél Iceland Express sem átti að flytja 220 farþega frá Alicante á Spáni til Íslands klukkan 23:10 að íslenskum tíma fer ekki í loftið fyrr en í fyrsta lagi um miðjan dag, föstudag. Er þetta gert af öryggisástæðum.

Um Boeing 757-200-flugvél er að ræða en tækjabúnaður flugvélarinnar gerði flugmönnum viðvart um að skoða þyrfti hreyfilinn. Flugvirkjar á vegum félagsins munu skoða annan hreyfil flugvélarinnar áður en hún fer í loftið.

Flugvirkjar á Spáni hafa verið kallaðir til að skoða hreyfilinn en Iceland Express telur nauðsynlegt að flugvirkjar félagsins í Lundúnum taki ástand hreyfilsins út áður en henni verður heimilað að fljúga til Íslands, segir í tilkynningu frá Iceland Express.

Reynt að útvega farþegum gistingu, mat og drykk

„Farþegum hefur verið greint frá stöðu mála og allt gert til að útvega þeim mat og drykk á flugvellinum. Það hefur hins vegar reynst erfitt þar sem búið er að loka nánast öllum veitingastöðum flugvallarins.

Fulltrúi Iceland Express í Alicante er að vinna í að finna hótelgistingu fyrir farþegana, en það getur líka reynst erfitt þar sem háannatími ferðamannaþjónustunnar stendur nú yfir á Spáni. Farþegum var strax gerð grein fyrir stöðu mála og þeir vita að verið er að reyna allt sem hægt er til að útvega þeim gistingu í Alicante og nágrenni,“ segir í tilkynningu frá Iceland Express.

Tilkynning sem barst um eittleytið í nótt en var sett inn á mbl.is kl. 6:45

„Tekist hefur að útvega farþegum með flugvél Iceland Express sem fara átti frá Alicante á Spáni kl. 23:10 að íslenskum tíma (18. ágúst) fæði og drykk og um helmingur farþega hefur snúið til íbúða á þeirra eigin vegum vegna þess að ljóst er að heimferð þeirra mun dragast a.m.k. fram á miðjan dag föstudagsins 19. ágúst af öryggisástæðum.

Þar sem nú er háannatími ferðamannaþjónustunnar á Spáni er ekki auðvelt að finna svo stórum hópi gistingu með litlum fyrirvara, en 220 farþegar áttu bókað far með flugvélinni. Um miðnætti að íslenskum tíma hafði fulltrúum félagsins í Alicante engu að síður tekist að finna gistingu fyrir allar barnafjölskyldur í hópnum, eða tæpri klukkustund eftir áætlaða brottför. Verið er að vinna í að finna gistingu fyrir nokkra tugi farþega sem enn eru á flugvellinum.

Tækjabúnaður flugvélarinnar, sem er af gerðinni Boeing 757-200, gaf til kynna við lendingu í Alicante að skoða þyrfti annan hreyfil hennar. Að mati Iceland Express er nauðsynlegt að tæknimenn félagsins í Lundúnum taki hreyfilinn út af öryggisástæðum, áður en henni verður gefin heimild til að fljúga til Íslands. Ljóst er að heimför farþeganna getur því dregist a.m.k. fram á miðjan dag, föstudag.

Farþegum var greint frá stöðu mála um leið og hún lá fyrir áður en kom til þess að þeir færu um borð í flugvélina. Fulltrúar Iceland Express í Alicante sem og áhöfn flugvélarinnar hafa séð um að miðla upplýsingum til farþega, sem og að útvega þeim fæði og drykk og vinna í því að útvega þeim gistingu,“ segir í tilkynningu, sem barst í nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert